Ég vil ekki að þú trúir öllu sem þú lest í blöðunum, kæri lesandi. Ef ég skrifaði til dæmis að lagabálkur okkar Íslendinga beinlínis hvetji ofbeldismenn til að níðast fremur á eigin börnum en að beita fullorðna kynferðisofbeldi, þá myndi ég ekki vilja að þú gleyptir við því án umhugsunar. Fyrst myndi ég vilja að þú upplifðir hneykslan og vantrú, jafnvel að þú móðgaðist út í mig fyrir að halda annarri eins vitleysu fram um lagasafnið sem við eigum öll í sameiningu, þennan vandaða samfélagssáttmála um hvað sé rétt og rangt. Svo myndi ég vilja að þú kíktir í almennu hegningarlögin í leit að upplýsingum til að hrekja þessa vafasömu fullyrðingu mína. Þar myndirðu finna 194. grein, sem segir að nauðgun sé samræði eða kynferðismök án samþykkis, og að samþykki teljist liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Refsingin skal vera þyngri ef þolandinn er barn undir 18 ára aldri, að hámarki 16 ára fangelsisvist. Gott og vel. Svo myndir þú rekast á eftirfarandi texta í 200. grein:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að [8 árum] 1) og allt að [12 ára] 1)fangelsi sé barnið [á aldrinum 15, 16 eða 17 ára].
„Hvað í fjandanum er hér á ferðinni?“
Hér myndi þig væntanlega reka í rogastans. Bíddu við – það er sem sagt vægara brot að eiga ósamþykkt kynferðismök við barn sitt (8–12 ára hámarksrefsing), heldur en við fullorðna manneskju (16 ára hámarksrefsing)? Hvað í fjandanum er hér á ferðinni? Börn geta ekki með nokkru móti samþykkt kynmök við foreldri sitt, enda getur frjálst og óþvingað samþykki einungis verið veitt milli jafningja, ekki í aðstæðum þar sem annar aðilinn stendur höllum fæti. Þar af leiðandi geta fangar aldrei samþykkt mök við fangaverði, né getur fólk sem býr á sambýli samþykkt mök við starfsfólk sambýlisins svo dæmi séu nefnd. Ljóst er að börn eiga allt sitt undir foreldrinu, og þar af leiðandi er óskiljanlegt að samþykkisskortur 17 ára barns (8 ára hámarksrefsing) skuli teljast tvöfalt léttvægari en samþykkisskortur fullorðinnar manneskju án nokkurra skyldleikatengsla (16 ára hámarksrefsing). Þetta verður enn dularfyllra með tilliti til þess að náin tengsl eiga að leiða til þyngri refsingar, ekki öfugt.
„Börn geta ekki með nokkru móti samþykkt kynmök við foreldri sitt“
Ef þú héldir áfram lestrinum myndirðu sjá að í 202. grein segir:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en [15 ára], skal sæta fangelsi [ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum].
Semsagt: Ef barnið er undir 15 ára aldri skipta skyldleikatengsl ekki lengur máli. Það eru einfaldlega þung viðurlög við því að eiga kynmök við barn sem er 14 ára eða yngra, hvernig sem það tengist manni.
Nú myndi ég vilja að þú bærir saman þessar þrjár lagagreinar og ímyndaðir þér að Jón nokkur eigi þrjár dætur. Í ljós kemur að hann misnotar þær allar. Hann á yfir höfði sér 16 ára hámarksrefsingu fyrir að misnota 14 ára dóttur sína (skv. 202. gr.), 12 ára hámarksrefsingu fyrir að misnota 15 ára systur hennar (skv. 200. gr.), og 8 ára hámarksrefsingu fyrir að misnota 17 ára dóttur sína (skv. 200. gr.). Nauðgi Jón hins vegar ókunnugri konu, burtséð frá aldri hennar, á hann yfir höfði sér 16 ára hámarksrefsingu (skv. 194. gr.), eða tvöfalt þyngri refsingu en fyrir að misnota elstu dóttur sína.
Það er ekki einungis undarlegt misræmi í aldursviðmiðum 194. greinar og 200. greinar, það munar einnig 4–8 árum á hámarksrefsingunni, en dómar í kynferðisbrotamálum hafa allajafna verið á bilinu 1–3 ár. Þetta er sem sagt enginn minni háttar munur, það munar í raun heilum dómi og gott betur.
Nú myndi ég vilja að þú litir upp úr lestrinum á lagasafninu, kæri lesandi, og kæmist að hinni óumflýjanlegu og jafnframt hrollvekjandi niðurstöðu að eini afslátturinn sem er veittur af hámarksrefsingu fyrir ósamþykkt kynmök er þegar 15, 16 og 17 ára börnum er nauðgað af foreldrum sínum/forráðamönnum.
Leyfðu þér að melta þá uppgötvun. Bættu svo við þeirri staðreynd að það er nýbúið að endurskoða kynferðisbrotakaflann. Nýju lögin gengu í gildi árið 2018.
En ekki trúa upprunalegu fullyrðingu minni um að lagabálkur okkar Íslendinga beinlínis hvetji ofbeldismenn til að níðast fremur á eigin börnum en að beita fullorðna kynferðisofbeldi, með sérstökum refsiafslætti. Ég er búin að halda því fram í tíu ár, frá því ég gaf út bókina Á mannamáli, þar sem ég sagði í fyrsta sinn dæmisöguna um þriggja barna föðurinn Jón. Þú hefur hins vegar val um að neita að gleypa við þessari vitleysu. Krefðu þingmenn svara á hvers vegna þetta sé svona. Stundum gerast nefnilega mikilvægustu breytingarnar þegar við neitum að trúa að ekki sé hægt að gera betur.
Athugasemdir