Kona féll fram af svölum.
Alvarlega slösuð eftir fall.
Konan ekki í lífshættu eftir fallið.
Kvöldið áður en alþjóðleg Metoo-ráðstefna var sett í Hörpu hrinti maður konu fram af svölum í Breiðholtinu og þetta voru fyrirsagnirnar sem birtust í flestum miðlum. Gerandinn var ósýnilegur, ábyrgðin konunnar sem féll.
Það skiptir máli hvernig við beitum tungumálinu, orðum hlutina og setjum þá fram.
Þegar talað er um að kona hafi fallið fram af svölum þegar henni var í raun og veru hrint fram af svölum þá er verið að gera lítið úr veruleika hennar og reynslu. Það er verið að draga úr ofbeldinu sem hún var beitt. Það er verið að hylma yfir með geranda hennar, skekkja myndina, færa ábyrgðina frá geranda sem er hvergi nefndur og yfir á þolanda, konuna sem féll. Það er kannski ekki viljandi gert, en í orðalaginu felst undirliggjandi meðvirkni. Í meðvirkninni felst uppgjöf, ákveðið samþykki fyrir því að svona sé þetta bara. Kynbundið ofbeldi er hluti af lífinu, eitthvað sem við sættum okkur ekki aðeins við heldur gerum lítið úr og afneitum til að þurfa ekki að takast á við það, tala um það. Þegiðu bara og vertu sæt. Brostu.
Eftir margra ára baráttu fyrir því að konur geti og megi segja sögu sína, var þaggað niður í þeim. Því beittari sem frásagnir þeirra urðu, því meiri slagkraft sem þær höfðu, því sterkari sem samtakamátturinn varð, því meiri varð harkan sem mætti þeim. Sums staðar og stundum er því sem næst búið að banna umræðu um kynferðisofbeldi. Í Vestmannaeyjum, á þjóðhátíð, má segja frá alvarlegum líkamsárásum en ekki nauðgunum.
Oftast látum við þó eins og við þolum umræðuna, það er að segja ef frásögnin byggir aðeins á reynslu þolanda og upplifun hans af ofbeldinu og kerfinu, svo lengi sem gerandinn er nafnlaus og ósýnilegur. Dirfist konur að segja frá því hver braut á þeim mega þær eiga von á málsóknum og fjársektum.
Appelsín og ópal, nauðganir og þjóðhátíð
Maður gekk fyrir bíl á ofsahraða.
Alvarlega slasaður eftir að hafa gengið fyrir bíl.
Maðurinn ekki í lífshættu eftir að hafa gengið fyrir bílinn.
Almennar fréttir eru ekki skrifaðar með þessum hætti. Þegar kemur að kynbundnu ofbeldi er hikið meira, einhver efi í frásögninni, efi um að þetta sé nú svona. Meintur gerandi.
Við erum alin upp við slíkan fréttaflutning. Erum fyrir löngu orðin samdauna fréttum af því að nauðgun hafi verið framin, varfærnislegu orðfæri þar sem gerandinn er hvergi nefndur í því samhengi. Eins og nauðganir séu náttúruafl, eitthvað sem bara gerist og enginn ber ábyrgð á. Órjúfanlegur hluti af verslunarmannahelginni og skemmtanalífi Íslendinga, hluti af menningunni, eins og appelsín og ópal, harðfiskur og lundi, nauðganir og þjóðhátíð.
Við tölum um að konum sé nauðgað, ekki að karlar nauðgi konum. En hér er það, staðreynd í íslensku samfélagi: Karlar nauðga konum. Karlar lemja konur. Karlar hrinda konum fram af svölum.
Ég veit hvað þú ætlar að segja: Nei, ekki allir karlar. Nei, sem betur fer. Og já, konur beita líka ofbeldi, bara ekki jafn oft og karlar, ekki jafn kerfisbundið og karlar. Og já, karlar eru líka beittir ofbeldi. Munurinn er bara sá að karlar fara með völdin í samfélaginu, þeir stýra fyrirtækjum og fjármagni og þurfa almennt ekki að hafa eins mikið fyrir því að sanna virði sitt og konur. Hún getur grenjað um þetta en hún getur ekki stjórnað.
Heldur þú að það sé tilviljun að maður hafi verið dæmdur fyrir að toga í buxnadreng stráks í sundi – en stelpum detti ekki einu sinni í hug að þær geti kært karla sem káfa á klofi þeirra á skemmtistað? Að ef þeir eru gripnir þá séu þær fljótar að fyrirgefa, svo þeir geti skellt í eins og eitt gott uppistand og salurinn hlegið með. Nei nei, ekkert óþægilegt hér. Djöfulsson … djöfulssssson ... sss … ekki segja frá.
„Ég er enginn ofbeldismaður“
En konan féll ekki fram af svölum. Henni var hrint fram af svölum og það er alvarlegur glæpur, framinn af manni sem ber ábyrgð á honum og ætti að sæta henni. Það er engin ástæða til þess að aflétta hann þeirri ábyrgð í umfjöllun um málið. En alveg eins og það er staðreynd að karlar nauðga konum – og reyndar körlum og börnum – þá er það líka staðreynd að fæstir þeirra þurfa nokkurn tímann að axla ábyrgð á ofbeldinu sem þeir beita.
„Guð má vita hvort hún hafi ekki oft átt skilið að fá einn löðrung miðað við það hvernig hún hefur hagað sér, en ég er enginn ofbeldismaður“
Karlmaður sem var ákærður fyrir að hrinda konu fram af svölum í september 2009 hafði þetta um málið að segja: „Það eina sem ég get sagt er að ég hef gert allt of mikið fyrir þessa stelpu og verið allt of góður við hana. Við höfum átt í erjum áður og guð má vita hvort hún hafi ekki oft átt skilið að fá einn löðrung miðað við það hvernig hún hefur hagað sér, en ég er enginn ofbeldismaður.“
Í vikunni komu konur saman til að mótmæla því að 65 prósent nauðgunarmála eru felld niður af ríkissaksóknara. Tölurnar tala sínu máli og það hlýtur öllum að vera ljóst að réttarkerfið virkar ekki fyrir þolendur kynferðisofbeldis þegar fæst mál rata nokkurn tímann fyrir dóm.
Nú er nýr dómsmálaráðherra tekinn við. Á meðan Metoo-ráðstefnan stóð í Hörpu birtust fréttir af fyrsta frumvarpinu sem ráðherrann, ung kona, hyggst leggja fyrir þingið. Að auðvelda Íslendingum aðgengi að áfengi í vefverslunum. Skál!
Skítt með það þótt menn fái enn vægari dóma fyrir að misnota eigin börn en annarra. Skítt með það þótt börn alist upp hjá dæmdum barnaníðingum án þess að nokkrar heimildir séu til eftirlits. Ekki fyrr en það kviknar grunur um að níðingurinn hafi líka brotið á börnunum sem búa varnarlaus heima hjá honum og eiga að vera örugg þar. Skál!
Konur eru konum bestar.
Það er reyndar satt, konur eru konum bestar. Annars myndu þær ekki standa úti í rigningu til að mótmæla niðurfellingu nauðgunarmála. Það er bara svo fáránlegt að þær þurfi að taka þann slag. Af hverju bregst kerfið ekki við, þegar ranglætið blasir við? Af hverju þurfa konur að mótmæla svo sláandi tölfræði? Af hverju þurfa brotaþolar alltaf að bera þessa baráttu á herðum sér?
Horfumst í augu við þennan óbærilega léttleika tilverunnar, að samfélag þar sem jafnrétti mælist mest í heimi er samt svo vanmáttugt og varnarlaust þegar kemur að því að uppræta kynbundið ofbeldi.
Nauðgun fyrsta kynlífsreynslan
Nauðgun fyrsta kynlífsreynsla margra kvenna.
Önnur fyrirsögn sem birtist nú í vikunni undirstrikaði skilningsleysið og vanmáttinn. Nauðgun er ekki kynlíf. Nauðgun er ofbeldi, refisverður glæpur.
Ein af hverjum sextán konum sagðist búa yfir þessari reynslu. Flestar sögðust hafa verið fimmtán ára og gerendurnir að jafnaði um sex árum eldri. Hversu margir menn hafa þá nauðgað fimmtán ára stelpum, sem höfðu ekki einu sinni upplifað kynlíf áður en þeir brutu gegn þeim? Það er ekki bara skelfilegt að mörgum konum sé nauðgað áður en þær hafa nokkurn tímann upplifað kynlíf, það er hættulegt lífi þeirra og heilsu. Ungar konur sem fara út í lífið með þau skilaboð að aðrir geti tekið sér vald yfir líkama þeirra upplifa samþykki sitt varla mikils virði. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvert það getur leitt. Þið þurfið reyndar ekkert að ímynda ykkur það, þær hafa sagt okkur það, margoft. Húrrandi klikkaðar kuntur.
Kannski er kominn tími til að hlusta, skilja og bregðast við.
Kannski er kominn tími til að horfast í augu við ofbeldið sem þrífst í samfélaginu.
Kannski er kominn tími til að færa fókusinn og ábyrgðina yfir á gerendur.
„Þetta eru ofbeldismenn. Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi.“
Jú, reyndar. Með vaxandi fylgi Miðflokksins, með formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd, á Alþingi. Og víðar.
Um daginn var dæmdum ofbeldismanni boðið í viðtal til að ræða gönguferð sem hann hafði farið í til að hreinsa hugann eftir að hann varð „fyrir miklum áföllum“, eins og það var orðað. Hann hafði nefnilega nýlega fengið dóm „vegna samskipta sinna við fyrrverandi eiginkonu sína“ sagði orðrétt í fréttinni.
Maðurinn var reyndar ekki dæmdur fyrir samskipti heldur fyrir alvarlegt ofbeldi gagnvart barnsmóður sinni og brot á barnaverndarlögum, þar sem dóttir þeirra varð vitni að ofbeldinu. Vitni að því þegar hann hafði tekið móður hennar hálstaki, þrengt að hálsi hennar og hrint þannig að hún féll í gólfið.
Kannski er ekki skrítið að við getum ekki upprætt ofbeldi, hér í þessari jafnréttisparadís, þegar við getum ekki einu sinni sagt rétt frá.
Ofbeldi er ekki samskipti. Ofbeldi er valdbeiting og kúgun. Ofbeldi er niðurlæging og niðurbrot. Ofbeldi er ógeð, eitur sem smitar út frá sér, allt það versta sem þú getur hugsað þér.
„Þetta bara gerðist“
Árið 2001 var maður dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir manndráp. Hann hrinti konu fram af svölum í Kópavogi. Í vasa hans fundust glænýjar blúndunærbuxur hennar úr satíni sundurtættar. Axlabandið á smekkbuxum hennar var skemmt. Áverkar á líkama hennar. Við handtökuna brást hann við með hótunum. Viðurkenndi þó að hafa svívirt konuna með orðum sínum, kallað hana öllum illum nöfnum, kallað hana druslu. Á meðan beðið var eftir réttarfarslegri rannsókn tók hann skyndilega upp á því að blístra, eins og hann væri að líkja eftir því að einhver væri að falla úr mikilli hæð niður á harðan flöt. Blístrið endurtók hann í fangaklefa. Maðurinn var ákærður og dæmdur fyrir manndráp. Hvers vegna reifstu nærbuxurnar? var spurt fyrir dómi. Þetta bara gerðist, svaraði hann og bætti því við að þetta hefði nú einu sinni verið gert við hann og kannski væri það ástæðan. Engin gögn eru til varðandi þá ákvörðun að ákæra hann ekki fyrir nauðgun. Allar götur síðan hefur móðir konunnar barist fyrir því að fá viðurkenningu á því að maðurinn hafi nauðgað dóttur hennar áður en hann myrti hana, en allt kom fyrir ekki. Það þótti ekki einu sinni ástæða til að rannsaka það.
Svipti hana frelsinu, lífinu
Tvö ár eru liðin frá því að maður var dæmdur fyrir að myrða konu sem hann kvaðst vera ástfanginn af. Þau höfðu hist einu sinni, þegar hann réðst inn á heimili hennar. Vitni sem kom þar að sagðist hafa séð á svip mannsins að eitthvað hræðilegt ætti eftir að gerast. Hann gekk út og lokaði dyrunum á eftir sér. Gerði nágranna viðvart sem hringdi á neyðarlínuna. Upptakan var spiluð í réttarsal. Þar mátti heyra angistaróp konunnar á meðan hún var barin til óbóta og kæfð til bana. Konan var látin þegar lögreglu bar að garði. Á blóðugum vettvangi hafði maðurinn uppi stór orð um samskipti sín við konuna, hvernig hún hefði leikið sér að tilfinningum hans og sofið hjá svörtum manni. Þar af leiðandi hefði hann þurft að gera það sem hann gerði. Eins og ábyrgðin væri hennar, en ekki hans.
Eins og hún hafi ekki verið sjálfstæður einstaklingur með frelsi til þess að velja fyrir sig hvað hún vildi og vildi ekki gera. Eins og hann hafi haft vald yfir henni, vald til þess að svipta hana frelsinu, lífinu. Eins og hún væri ekkert. Ekkert annað en kona. Til fyrir hann. Eins og hlutverk hennar hafi verið að þjóna hans þörfum og löngunum og hugmyndum. Og þegar hún hafnaði því þá hafi hann ekki átt annarra kosta völ en að refsa henni, beita hana ofbeldi, myrða hana.
Þrír látnir í fjölskylduharmleik
Þrír látnir í fjölskylduharmleik.
Fyrr í mánuðinum birtist frétt á íslenskum vefmiðli með þessari fyrirsögn. Svo hófst lesturinn: Að minnsta kosti þrír eru látnir eftir skotárás á heimili … Fréttin fjallaði í raun um óðan lögreglumann sem hafði myrt konuna sína og tvö börn.
Heimilisofbeldi er ekki fjölskylduharmleikur. Ofbeldi er ekki harmleikur sem dynur á fjölskyldum án þess að nokkuð verði við ráðið. Ofbeldi er val þess sem beitir ofbeldinu. Ofbeldi er á ábyrgð þess sem beitir ofbeldinu. Ofbeldi er framið af einstaklingum, gerendum sem enn eru því miður allt of oft ósýnilegir í allri umræðu um ofbeldi.
Heimilið hættulegasti staðurinn
Heimilið er hættulegasti staðurinn fyrir konur.
Þetta sagði íslenskur fræðimaður þegar hann fjallaði um rannsókn sína á ofbeldismönnum. Þetta hafa fleiri fræðimenn sagt, fagaðilar sem vinna með ofbeldi, konur sem hafa búið við heimilisofbeldi og aðrir sem hafa misst ástvini vegna þess. Þetta kemur fram í tilkynningum til lögreglu, komum á neyðarmóttökuna, almennri tölfræði yfir glæpi og niðurstöðum rannsókna á ofbeldi gagnvart konum. Konur eru yfirleitt beittar ofbeldi í heimahúsi, af einhverjum sem þær þekkja til. Ekki alltaf, en oftast. Stundum eru konur líka beittar ofbeldi af ókunnugum mönnum sem telja sig eiga tilkall til þeirra. Ég á þetta og ég má þetta.
Á heimsvísu hefur um þriðjungur kvenna verið beittur ofbeldi af maka eða sambýlismanni. Á Íslandi hafa 42 prósent kvenna orðið fyrir ofbeldi, oftast innan veggja heimilisins. Um sextíu prósent allra morða sem framin voru á Íslandi á árunum 2003–2015 mátti rekja til heimilisofbeldis. Á síðustu 30 árum hafa tíu konur verið myrtar á Íslandi af mökum, fyrrverandi mökum eða vonbiðlum. Enn fleiri konur hafa verið myrtar, meiddar og særðar af mönnum sem töldu sig hafa tilkall til þeirra og geta tekið sér vald yfir líkama þeirra og lífi.
„Skrikaði fótur er hann steig út úr bifreiðinni með þeim afleiðingum að hann skall með höfuð sitt í enni brotaþola“
Þungamiðja meðferðar fyrir fólk sem beitir ofbeldi felst í því að fá það til að taka ábyrgð á ofbeldinu. Af því að fólk sem beitir ofbeldi er alls konar fólk sem á ekkert endilega mikið sameiginlegt annað en þetta; það beitir ofbeldi og getur réttlætt það fyrir sjálfu sér. Það þarf ekki að ræða við marga ofbeldismenn áður en þessi þráður verður skýr. Afneitunin er svo sterk að jafnvel þótt þeir hafi þegar verið dæmdir fyrir ofbeldisglæpi reyna þeir enn að sannfæra sig og aðra um að þeir séu ekki ofbeldismenn. Þegar markvisst var rætt við íslenska ofbeldismenn í rannsóknarskyni var niðurstaðan sú að meira að segja þeir sem viðurkenndu verknaðinn litu engu að síður svo á að sökin sem slík lægi annars staðar; þeir hefðu átt slæma æsku, væru með svo erfitt skap, í neyslu eða ættu bara svo erfiðan maka.
Þar lýsti maður því hvernig hann hefði bara ætlað að fara á eftir konunni þegar hún hljóp út en óvart rifið í hana þannig að hurðin small í andlit hennar og vörin sprakk, svo hann hefði ætlað að þrífa hana en fyrst hún streittist á móti þegar hann fór með hana inn á bað hefði hann misst stjórn á skapi sínu, grýtt henni í baðkarið og smúlað með sturtuhausnum. Fyrst hún hefði brugðist illa við því þá hefði hann sótt skammbyssu, hlaðið hana og látið í hendurnar á henni um leið og hann beindi byssunni að sjálfum sér með þeim orðum að fyrst hún vildi losna við hann þá gæti hún gert það svona. Þá leið yfir hana og hann sem ætlaði bara að hlaupa út á eftir henni.
Annar lýsti því hvernig hann hefði snúið konuna sína niður, tekið hana kverkataki og grýtt út með látum fyrst hún hefði vogað sér að gagnrýna neysluna hans og gera athugasemdir við fjárhaginn. Hann sem væri svo góður skaffari, sko. Sterkur karl.
Maður sem var sakaður um að hafa keyrt á bíl barnsmóður sinnar áður en hann skallaði móður hennar, á settum fæðingardegi barnsins þeirra, bar fyrir sig að bensíngjöfin hefði verið föst með þeim afleiðingum að hann klessti á bílinn, áður en honum „skrikaði fótur er hann steig út úr bifreiðinni með þeim afleiðingum að hann skall með höfuð sitt í enni brotaþola.“ Síðar þurfti að fjarlægja manninn af fæðingardeild Landspítalans að beiðni starfsfólks. Farið var fram á nálgunarbann yfir manninum því fjölskyldu- og velferðarnefnd sveitarfélagsins mat aðstæður með þeim hætti að konan og börn hennar væru í háska. Því var hafnað.
Ekkert réttlætir ofbeldi
Málflutningur þeirra sýnir hvernig ofbeldismenn reyna stöðugt að færa ábyrgðina frá sjálfum sér og yfir á aðstæður og annað fólk, oftar en ekki yfir á fórnarlömb sín, sem samkvæmt þeim hafa með einum eða öðrum hætti kallað yfir sig ofbeldið. Þetta er þeirra leið til að réttlæta ofbeldið, með því að gera sjálfa sig að fórnarlömbum aðstæðna svipta þeir sig um leið ábyrgðinni á gjörðum sínum. Þegar þessir menn reyna ítrekað að færa ábyrgðina yfir á þolendur þá þarf að spyrna við og veita slíkum málflutningi mótvægi. Það skiptir því máli hvernig er talað við og um menn sem beita ofbeldi.
Þeir þurfa að fá að heyra að ábyrgðin er þeirra og alfarið þeirra. Sökin liggur hvergi nema hjá þeim. Þær þurfa að fá að heyra að það getur enginn kallað yfir sig ofbeldi. Það skiptir engu máli hvað þú vilt, hvað þú segir eða hvað þú gerir. Ekkert réttlætir ofbeldi gegn þér. Aldrei.
Og konan féll ekki. Henni var hent niður.
Athugasemdir