Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid tóku á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í Höfða í dag. Þar lagði forseti Íslands áherslu á fjölbreytileikann og var með armband frá Krafti í regnbogalitum. Forsetafrúin var hins vegar klædd í hvíta buxnadragt og sendi með því þögul skilaboð um jafnrétti.
Bandarískar þingkonur klæddust hvítu
Í byrjun árs vakti það athygli þegar bandaríska þingkonan Alexandra Ocasio-Cortez klæddist hvítri buxnadragt þegar hún sór embættiseið, yngst allra kvenna í bandarískri stjórnmálasögu. Klæddist hún hvítu til að heiðra baráttukonur fyrir jafnrétti, en klæðnaðurinn var vísun í bresku súffragretturnar sem hófu baráttu sína árið 1903 og beittu róttækum aðferðum til að berjast fyrir kosningarétti kvenna og jafnrétti. „Ég klæddist hvítu í dag til heiðurs öllum þeim konum sem komu á undan mér, og þeim sem á eftir fylgja,“ skrifaði hún á Instagram-reikning sinn við það tækifæri.
„Ég klæddist hvítu í dag til heiðurs öllum þeim konum sem komu á undan mér, og þeim sem á eftir fylgja“
Mánuði síðar, eða í febrúar, sýndu þingkonur Demókrataflokksins samstöðu þegar þær mættu allar í hvítum buxnadrögtum til að hlýða á árlegt ávarp forsetans um stöðu ríkjasambandsins. Með hvíta litnum, á móti dökkum jakkafötum karlanna, var ójafnvægið í salnum undirstrikað. Þrátt fyrir metfjölda kvenna voru þær aðeins um 23 prósent þingmanna.
Áður hafði Hillary Clinton klæðst hvítum buxnadrögtum á lykilstundum í kosningabaráttunni um forsetaembættið, meðal annars þegar hún tók við útnefningu Demókrataflokksins, í þriðju og síðustu kappræðunum við Donald Trump fyrir kosningarnar og svo loks þegar hann var vígður til forseta.
Með armband í regnbogalitunum
Jafnréttismál hafa verið Elizu hugleikin og hefur hún verið ötull talsmaður þeirra frá því að eiginmaður hennar var kjörinn forseti. Aðeins eru tveir dagar liðnir síðan hún tjáði sig um viðhorf gagnvart eiginkonum þjóðarleiðtoga á Facebook. Þar sagðist hún ekki vera „handtaska eiginmanns míns, sem á að grípa þegar hann hleypur út um hurðina og er stillt upp með þöglum hætti við hlið hans á opinberum uppákomum.“
Það má því leiða að því líkum að skilaboð Elizu hafi verið skýr, þegar hún valdi að klæðast á þennan hátt á fundi með varaforseta Bandaríkjanna í dag; að leggja þurfi áherslu á jafnréttismál. Eins vakti athygli að Eliza bar regnbogaarmband, tilvísun í réttindabaráttu samkynhneigðra.
Forsetinn bar einnig litríkt armband frá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra. Benti hann á að Ísland mæti góð samskipti við Bandaríkin mikils. „Ég vonast líka til að þú fáir tilfinningu fyrir þeim gildum sem okkur eru kær, frelsi, fjölbreytileika, alþjóðasamstarf og virðingu hverju fyrir öðru,“ sagði Guðni.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Guðni leggur áherslu á slík gildi gagnvart bandarískum stjórnvöldum. Þegar Donald Trump var kjörinn forseti árið 2016 óskaði Guðni honum til hamingju með þeim orðum að við Íslendingar styðjum „jafnrétti kynjanna og höfum í hávegum jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú.“
Forsætisráðherra ræddi jafnréttismál
Mike Pence hefur lýst sjálfum sér með þeim hætti að hann sé „kristinn, íhaldssamur og repúblikani, í þessari röð.“ Viðhorf hans gagnvart kvenfrelsi og réttindum samkynhneigðra eru vægast sagt íhaldssöm og á meðan hann var staddur í Höfða brugðust fjölmörg fyrirtæki og stofnanir við með því að draga fána í regnbogalitunum að húni, fána sem hefur orðið að táknmynd í réttindabaráttu samkynhneigðra.
Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, mætti Pence í Keflavík í kvöld þar sem þau áttu fund saman. Fyrir fundinn áttu þau samtal við fjölmiðla þar sem hún lagði áherslu á að þau myndu ekki aðeins ræða varnar- og utanríkismál, heldur myndu þau einnig ræða loftlagsmál og jafnréttismál.
Athugasemdir