Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, lýsti á fundi um gagnkvæm milliríkjaviðskipti Bandaríkjanna og Íslands í dag, áhyggjum af umsvifum Kínverja og Rússa í nálægð við Ísland.
Pence beindi orðum sínum að Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og sagði Ísland vera staðett í „æ mikilvægari hluta heimsins, ekki aðeins efnahagslega, heldur hernaðarlega.“
„Herra utanríkisráðherra. Þú veist af áhyggjum okkar af aukinni umferð rússneska sjóhersins á norðurslóðum, þeim áhyggjum sem við höfum af auknum áhuga Kínverja, ekki bara á fjárfestingu, heldur á öryggismálum og viðveru á svæðinu,“ sagði Pence.
Pence sat fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að loknum fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands í Höfða. Að loknum fundi Guðlaugs Þórs og Pence sátu þeir fund um gagnkvæm milliríkjaviðskipti þjóðanna þar sem saman voru komnir fulltrúar viðskiptalífs landanna beggja. Meðal viðstaddra voru Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Guðlaugur Þór lýsti því að það væri mikið ánægjuefni að fá að hitta Pence og það væru mikil forréttindi að hann væri kominn hingað til lands. „Vera þín hér, herra varaforseti, varpar ljósi á sterk tengsl og samstarf Íslands og Bandaríkjanna.“ Hann lagði líka áherslu á að viðskipti milli landanna tveggja væru mikil og í vexti. Bandaríkin væru þannig stærsta viðskiptaríki Íslendinga, og stæðu að baki 16 prósentum í milliríkjaviðskiptum Íslands. Þá væru beinar fjárfestingar Bandaríkjamanna á Íslandi hinar mestu af öllum ríkjum. Loks vakti hann máls á áhuga Íslendinga á að stofna til fríverslunarsamnings við Bandaríkin.
Pence bar fram hamingjuóskir vegna mikils vaxtar í efnahagslífi Íslendinga. Hann taldi að rekja mætti þann vöxt að einhverju leyti til góðs gengis í efnahagslífi Bandaríkjanna, sem hann rakti til aðgerða Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. „Efnahagslíf ykkar er í miklum vexti. Og ég trúi því að það sé að hluta til vegna horfa í efnahagslífi Bandaríkjanna, sem er líka í vexti. Þökk sé forystu Trumps forseta er gríðarlegur uppgangur í bandarísku efnahagslífi,“ sagði Pence.
Pence taldi líklegt að einhver hluti þeirra 700 þúsund bandarísku ferðamanna sem komu til Íslands á síðasta ári hefðu komið hingað vegna hinnar góðu efnahagslegu stöðu sem leiðtogahæfileikar Trumps hefðu leitt til.
Athugasemdir