Leyniskyttur eru uppi á húsþökum við Borgartún. Sést hefur til manna með riffla á þökum húsnæðis Advania annars vegar og Arion banka hins vegar sitt hvoru megin við Höfða, þar sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fundar nú með ráðamönnum og forsprökkum íslensks viðskiptalífs.
Mikill viðbúnaður er vegna komu Pence til Íslands. Vopnaðir fulltrúar frá bandarísku leyniþjónustunni eru með honum í fylgd, en íslenskir lögreglumenn og sérsveit Ríkislögreglustjóra eiga einnig í samstarfi um öryggi hans. Hann dvelur á landinu í aðeins 7 klukkustundir, en hann fundar nú í Höfða með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Elizu Reid forsetafrú.
Meðal þeirra sem funda með Pence eru Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Advania og Efling hafa flaggað regnbogafánum við húsnæði sín sitt hvoru megin við Höfða. Þá hefur regnbogafánum einnig verið flaggað á fánastangir í Borgartúni sem tilheyra Reykjavíkurborg.
Pence hefur sætt gagnrýni vegna andstöðu sinnar við réttindi samkynhneigðra. Hefur hann verið andvígur því að samkynhneigðir þjóni í bandaríska hernum og kosið gegn auknum réttindum LGBT+ fólks. Hann er einnig andvígur hjónaböndum tveggja aðila af sama kyni. „Við erum bara að fagna fjölbreytileikanum eins og alla daga,“ sagði Þóra Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Advania, í samtali við Stundina.
Athugasemdir