Mikil fjölgun hefur verið á tilkynningum um vopnaburð til sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Alls bárust 200 slíkar tilkynningar í fyrra vegna 211 vopnategunda, að því fram kemur í ársskýrslu Ríkislögreglustjóra.
„Stígandi hefur verið í þeim verkefnum þar sem sérsveitin hefur þurft að bregðast við vegna tilkynninga sem berast lögreglu um vopnaða einstaklinga,“ segir í svari Jóns F. Bjartmarz, yfirmanns sérsveitarinnar, við fyrirspurn Morgunblaðsins. „Fyrst varð vart við þessa aukningu í verkefnum hjá sérsveit seinnipart árs 2016 og hefur sú aukning ekki gengið til baka. Er því ljóst að sérsveit þarf að bregðast oftar við tilkynningum um vopnaða einstaklinga en áður.“
Tilkynningum um vopn fjölgaði lítillega frá 2017, en þá hafði mikil fjölgun orðið frá árinu á undan. Í meirihluta tilfella er um egg- og stunguvopn að ræða, en 136 af 211 tilkynningum voru vegna slíkra vopna. 57 tilkynningar vörðuðu skotvopn, en í fáum tilvikum var tilkynnt um önnur vopn, til dæmis hafnaboltakylfur, hamra, rafbyssur eða úða.
Athugasemdir