„Ég hef fengið gríðarlegan stuðning og alveg getað borið höfuðið hátt,“ segir maður sem sýknaður var af ákæru um brot gegn þroskaskertri konu í samtali við Stundina.
Fjallað er ítarlega um málið í nýjasta tölublaði, en maðurinn var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands árið 2017 þrátt fyrir að hafa játað háttsemina að hluta, meðal annars að hafa strokið konunni og fengið við það holdris, kysst hana á beran maga og látið hana snerta lim sinn utan klæða. Hér má lesa umfjöllun um dóminn og vitnisburð geðlækna sem komu að málinu.
Um er að ræða unga konu með miðlungsþroskahömlun og einhverfurófsröskun, en hún hefur mælst með þroska á við 8 til 12 ára barn. Þótt maðurinn sé með framheilaskaða og ekki sérlega háa greindarvísitölu var ekki deilt um það í málinu að umtalsverður þroskamunur væri milli hans og konunnar.
Í gögnum málsins kemur fram að maðurinn hafi haldið áfram að umgangast konuna og heimsótt hana með leyfi móður hennar og stjúpföður meðan málið var til rannsóknar lögreglu. Lögreglan krafðist nálgunarbanns á manninn í tvígang en í bæði skiptin var kröfunni hafnað í Héraðsdómi Suðurlands en úrskurðinum snúið við í Hæstarétti. Faðir konunnar reyndi jafnframt að fá hana svipta lögræði til að vernda hana fyrir manninum, en því var hafnað.
Sami héraðsdómarinn og hafnaði nálgunarbannskröfunum og beiðninni um lögræðissviptingu kvað svo upp dóm í kynferðisbrotamálinu ásamt tveimur öðrum þann 22. mars 2017 og komst að þeirri niðurstöðu að ekki teldist sannað að maðurinn hefði haft ásetning til að brjóta gegn konunni.
Skipti þar sköpum að ekki þótti ljóst að konunni hefði „liðið illa“ meðan háttsemin átti sér stað. Í Barnahúsi hafði hún tekið tvívegis fram að sér hefðu þótt snertingar mannsins óþægilegar en fyrir dómi sagði hún aðeins að sér hefði liðið illa í kjölfar atvikanna.
Dómurinn var ekki birtur á vef dómstólanna á sínum tíma og málinu ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Fyrir vikið hefur ekki verið fjallað um það í fjölmiðlum fyrr en nú.
„Þau buðu mér heim í kaffi“
„Ég var í sambandi við móður stúlkunnar meðan á þessu stóð og þau buðu mér heim í kaffi,“ segir maðurinn í samtali við Stundina. Hann segist hafa orðið fyrir aðkasti af hálfu aðstandenda konunnar, einkum stjúpmóðurinnar sem hann sakar um að hafa ráðist á sig. Lögregla hafi ekki brugðist við því. Hann telur sig þó hafa fengið „mjög sanngjarna“ meðferð í réttarkerfinu.
Athugasemdir