Ásþór Björnsson er sextán ára unglingur sem lifir heldur óhefðbundnu lífi. Í haust mun hann hefja háskólanám við IT University of Copenhagen, en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann nú þegar lokið stúdentsprófi. Það gerði hann með því að taka 9. og 10. bekk saman og ljúka stúdentsprófi á tveimur árum, samhliða tveimur áföngum við Háskólann í Reykjavík. Hann viðurkennir þó að þetta sé ekki fyrir alla, þó að það hafi hentað honum að fara þessa leið. „Það getur haft áhrif, eins og þegar þú ert að fara inn í háskóla þá ertu yngstur á svæðinu en maður þarf bara að díla við það.“
Alltaf í forgangi að geta hitt vini
„Ástæðan fyrir því að ég tók þetta svona snemma var vegna þess að ég sá mjög mikil tækifæri í því. Auk þess var námsefnið oft áhugamálið mitt, sem ég var að sinna utan skóla. Ég sá enga ástæðu til þess að taka því rólega í því sem mér finnst gaman að gera. Þannig að ég bara kýldi á það og sé ekkert eftir því,“ segir Ásþór, en blaðamaður fékk að fylgja honum eftir á venjulegum degi í lífi hans, sem innifól fundi, fyrirtækjarekstur, landsliðsæfingu og körfuboltaleik með vinum.
„Ég fórnaði auðvitað tíma, en mér finnst þetta bara gaman“
„Mér finnst ég ekki hafa fórnað allt of miklu félagslega. Það var alltaf númer eitt að geta farið út að hitta vini sína. Það er það sem skiptir mestu máli. Maður verður að sjá um sjálfan sig. Ég fórnaði auðvitað tíma, en mér finnst þetta bara gaman. Þetta eru örugglega hlutir sem ég hefði hvort eð er verið að gera í mínum frítíma. Ég passaði að velja rétta námið fyrir mig þannig að ég gæti verið að gera það sem mér finnst gaman og stuðla að betri framtíð.“
Mikilvægt að njóta hvers verkefnis
Foreldrar Ásþórs búa í Kaupmannahöfn en sjálfur býr hann í bílskúrnum hjá frændfólki sínu. Í haust verður þó breyting þar á þegar hann fer út til foreldra sinna og hefur háskólanám í Danmörku. Í sumar hefur hann nýtt tímann til þess að sinna öðrum verkefnum, en hann er ekki aðeins afreksmaður í námi heldur er hann einnig í tveimur landsliðum, í keppnisforritun og vélmennaforritun.
Hann er einn stofnenda Ró-Box, fyrirtækis sem hlaut viðurkenninguna Junior Achievement Iceland á ráðstefnu ungra frumkvöðla, og gengur út á að gefa fólki færi á að hanna sitt eigið vélmenni með þeim aðföngum sem seld eru.
„Það er mjög mikilvægt að njóta hvers einasta verkefnis því þú gerir þetta bara einu sinni. Og þú getur fengið eitthvað út úr öllu sem þú gerir,“ segir hann. „Það sem er mikilvægt er að í hverju einasta verkefni er að reyna að læra eitthvað nýtt. Prófa eitthverja nýja hluti og nýta verkefnin til þess að gera eitthvað sem þú hefur gaman af. Þetta er allt andlegt og þú verður að fá eitthvað út úr þessum verkefnum.“
„Ef þú horfir á íslenskuritgerð sem stærðfræðivandamál þá er það ekkert mál, ef þú ert búinn að vera að gera stærðfræði“
Lykillinn sé að mæta hverju verkefni með opnum huga. „Svo er mjög gagnlegt að nýta sér þekkingu úr öðrum fögum til að leysa ný vandamál og læra nýja hluti. Ef þú horfir á íslenskuritgerð sem stærðfræðivandamál þá er það ekkert mál, ef þú ert búinn að vera að gera stærðfræði ótrúlega lengi. Þetta er allt skylt efni, ef þú horfir á það frá nýju sjónarhorni.“
Markmiðið aldrei að græða peninga
En það er ekki eins og Ásþór sé alltaf bundinn við bækurnar. Í frítíma sínum sinnir hann meðal annars réttindabaráttu þar sem hann situr í ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann fer á milli ráðstefna og flytur ræður og reynir að fræða fólk um hvað hægt er að gera til þess að stuðla að meiri sjálfbærni. „Við erum að hjálpa ríkisstjórninni við innleiðingu heimsmarkmiðanna í störfum sínum,“ útskýrir hann. „Þetta er mér mjög mikilvægt.“
„Núna er ég að leggja meiri áherslu á að njóta lífsins“
Svo reynir hann að njóta lífsins. „Seinasta ár er búið að vera mjög krefjandi þannig að núna er ég að leggja meiri áherslu á að njóta lífsins og hafa gaman af því sem ég er að gera. Ég ætla bara að halda áfram að læra eitthvað sem mér finnst skemmtilegt og gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt,“ segir hann.
Í framtíðinni gæti hann vel ímyndað sér að stofna fyrirtæki, en þó með þeim fyrirvara að „markmiðið væri aldrei að græða pening eða fá virðingu eða athygli. Það sem mig langar að gera með mínum verkum er að hjálpa fólki og gera eitthvað í þágu fólks. Mig langar að nýta tíma minn og hæfileika til að gera mitt besta.“
Nánar er rætt við Ásþór í myndbandinu hér að ofan, þar sem honum er fylgt eftir.
Athugasemdir