Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist hafa verið sammála Guðjóni S. Brjánssyni flokksfélaga sínum um niðurstöðuna í siðareglumáli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata. Þessu greindi hann frá í færslu á Facebook fyrir helgi þar sem hann gagnrýnir harðlega niðurstöðu siðanefndar í Klaustursmálinu.
„Þegar siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hefði brotið siðareglur þingmanna með ummælum sínum í sjónvarpsþætti um „rökstuddan grun“ varðandi aksturgreiðslur til Ásmundar Friðrikssonar – hún hafi komið fram við hann „á vanvirðandi hátt“ – fannst mér sú niðurstaða furðuleg og afar óheppileg en um leið taldi ég að þingmenn ættu ekki að grípa fram í fyrir hendurnar á siðanefnd – ættu ekki að vera dómarar hver í annars sök. Í svipaðan streng tók Guðjón Brjánsson fulltrúi Samfylkingar í Forsætisnefnd í bókun sinni við afgreiðslu þess máls,“ skrifaði Guðmundur Andri.
Í siðareglum alþingismanna kemur skýrt fram að siðanefnd er aðeins ráðgefandi. Forsætisnefnd er sá aðili sem kemst að niðurstöðu í siðareglumálum og ber ábyrgð á slíkum álitum.
Þrátt fyrir þetta virðist gæta tilhneigingar meðal þingmanna til að skýla sér á bak við álit siðanefndar í umræðu um niðurstöður forsætisnefndar í siðareglumálum.
Í bókun Guðjóns S. Brjánssonar í máli Þórhildar Sunnu kom fram að hann teldi „ótækt“ að pólitískir fulltrúar hefðu úrslitavald við afgreiðslu mála er varða brot á siðareglum. Sagði Guðjón „óheppilegt fyrir þingið, ásýnd þess og störf“ að Þórhildur Sunna hefði verið talin brotleg við siðareglur vegna ummæla um meint brot annars þingmanns. Engu að síður hlyti hann að „lúta niðurstöðu siðanefndar“.
„Það ætti að beina þeim spjótum að siðanefndinni en að sjálfsögðu ekki forsætisnefndinni“
Þegar Þórhildur Sunna gagnrýndi forsætisnefnd harðlega vegna niðurstöðunnar kom Steingrímur J. Sigfússon þingforseti fram í fjölmiðlum og sagði: „Einhver ummæli um spillta forsætisnefnd eiga náttúrulega í sjálfu sér ekki við, það ætti að beina þeim spjótum að siðanefndinni en að sjálfsögðu ekki forsætisnefndinni. Það er niðurstaða siðanefndar sem er látin standa.“
Þórhildur Sunna bregst við stöðuuppfærslu Guðmundar Andra á Facebook og gagnrýnir Guðjón S. Brjánssonar harðlega. „Guðjón Brjánsson lagði blessun sína yfir þau furðulegu fyrirmæli forsætisnefndar til siðanefndar að virða sannleiksgildi ummæla minna að vettugi. Hann greiddi því svo atkvæði sitt að staðfesta þá furðulegu niðurstöðu Siðarnefndar sem fékkst af sökum fyrirmæla sinna. Þú afsakar Andri þó ég líti á Guðjón sem dómara í minni sök,“ skrifar hún.
Þá segir hún Guðjón hafa haft val um að sitja hjá, eins og Þorsteinn Víglundsson og Bryndís Haraldsdóttir gerðu. „Hann gerði hvorugt og því sammála niðurstöðu siðanefndar. Augljóslega,“ skrifar hún. Guðmundur Andri svarar: „Þorsteinn er áheyrnarfulltrúi. Ég þekki hins vegar ekki afstöðu Bryndísar. Guðjón taldi sig ekki geta farið á svig við úrskurð siðanefndar og færði fyrir því rök. Hægt er láta ógert að fallast á þau, telja þau léttvæg eða röng, en óþarfi að gera honum upp afstöðu.“
Þórhildur Sunna bendir á að Inga Sæland sé áheyrnarfulltrúi líkt og Þorsteinn Víglundsson en hafi þó staðið að áliti forsætisnefndar eins og Guðjón. „Guðjón tók beinan þátt í að skapa niðurstöðu siðanefndar með því að meina sannleikanum aðgang að málsmeðferðinni. Hann tók svo aftur beinan þátt með því að staðfesta niðurstöðuna. Hann hefði vel getað sagt sig frá málinu, setið hjá eða greitt atkvæði gegn álitinu. Allar þær aðgerðir hefðu gefið til kynna í verki að hann væri ósammála niðurstöðunni, hefði jafnvel eitthvað út á þessa hlægilegu málsmeðferð að setja.“
„Þér finnst greinilega allt í fína að Guðjón hafi stutt þessa málsmeðferð gegn mér með atkvæði sínu alla leið“
Segir Þórhildur Sunna að með bókun Guðjóns, þar sem hann styður niðurstöðuna þótt hann telji hana óheppilega fyrir þingið, hafi hann sett samtryggingu framar sannfæringu. „Mér hefði þótt heiðarlegra að standa bara með sínu atkvæði og reyna ekkert að draga úr því með einhverri marklausri bókun. Ég fæ þig eflaust ekki til að verða sammála mér um þetta Andri, þér finnst greinilega allt í fína að Guðjón hafi stutt þessa málsmeðferð gegn mér með atkvæði sínu alla leið. En mér leiðist að lesa einhverja tilraun til fjarvistasönnunar fyrir Guðjón sem tók fullan þátt í þessari málsmeðferð frá upphafi til enda og getur því ekki hlaupið undan í einhverja bókun sem hann skrifaði þegar verkið var full unnið.“
Athugasemdir