Nú bíðum við eftir niðurstöðu forsætisnefndar í máli þeirra þingmanna sem voru afhjúpaðir með upptökum af Klaustri. Manna sem ráðherra í ríkisstjórn kallaði ofbeldismenn vegna ummæla sinna um hana, þegar þeir sögðu að það þyrfti að hjóla í hana í hefndarskyni fyrir áhugaleysið: „Þú getur riðið henni.“ Þegar hún steig síðan fram til að svara þessu voru skilaboðin skýr: „Ég upplifi þetta sem algjört ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn.“
Skortur á auðmýkt
Í stað þess að axla ábyrgð á þeim skaða sem þeir ollu með orðum sínum og framkomu, sársauka og vantrausti sem skapaðist innan þings og utan, hafa þeir háð grimmilega varnarbaráttu þar sem þeir hafa óhikað stillt sér upp sem leiksoppum. Fyrstu viðbrögð voru að saka fjölmiðla um hleranir og krefjast aðgerða gagnvart þeim, áður en þeir drógu öryrkja fyrir dóm og kærðu til Persónuverndar.
Í stað þess að gangast við gjörðum sínum héldu þeir því fram að selshljóðin sem þeir gáfu frá sér þegar þeir gerðu grín að fatlaðri konu, sem þeir líktu við vegg, hefði verið stóll að dragast til, eða reiðhjól fyrir utan.
Í stað þess að sýna auðmýkt neituðu þeir að mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, neituðu að víkja fyrir þeim konum sem vilja ekki vinna með þeim lengur, sökuðu þingforseta um hefndarþorsta og gagnrýndu skipun forsætisnefndar þegar meta átti hvort málinu yrði vísað til siðanefndar.
Afsökunarbeiðni þeirra kom með fyrirvara um að þetta hefði nú bara verið grín og þeir væru ekki verri en aðrir: „Ég hagaði mér asnalega en ég er ekki fyrsti þingmaðurinn til að gera það,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður og fyrrverandi utanríkisráðherra, sem í sama viðtali fullyrti að hann ætti ekki við áfengisvandamál að stríða en mætti tveimur mánuðum síðar með söguna af því hvernig hann var í óminnisástandi allt frá því að hann kom inn á Klaustur og í rúman sólarhring þar á eftir, og týnt fötunum sínum. Sami maður og hafði áður sagt: „Já, ég man eftir því,“ þegar hann var spurður út í orð sem féllu þetta kvöld. Svona tala allir, voru skilaboðin frá Sigmundi Davíð, „í sumum, jafnvel mörgum, tilvikum enn grófara“. Aðeins einn þingmaður íhugaði afsögn, eina konan í hópnum, en hætti svo við.
Skortur á siðferðisvitund
„Ég hef ekkert brotið af mér,“ sagði Gunnar Bragi þegar hann var afhjúpaður. Reyndar hafði hann hreykt sér af því á upptökunum að hafa skipað mann sem hann áleit „fávita“ sem sendiherra, í skiptum fyrir persónulegan greiða. Með orðum sínum átti Gunnar Bragi líklega við að hann hefði gerst sekur um glæp, því hann hafði svo sannarlega brotið gegn siðferðiskennd þjóðarinnar.
Ítrekað mætum við því viðhorfi að það sé mælikvarði á siðferðislega stöðu stjórnmálamanna hvort lög hafi verið brotin eða ekki, svo lengi sem það hafi ekki verið gert þá sé hægt að réttlæta nánast hvað sem er. „Þú sagðir að Ásmundur Friðriksson væri þjófur,“ sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins reiðilega og skók vísifingri framan í Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata.
Siðanefnd Alþingis hafði komist að þeirri niðurstöðu, sem var staðfest af forsætisnefnd, að Þórhildur Sunna hefði „skaðað ímynd“ Alþingis með þeim ummælum að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur hefði dregið sér fé. Ekki virtist skipta máli að Ásmundur hafði fengið rúmar 23 milljónir endurgreiddar frá Alþingi í aksturskostnað á sex ára tímabili – nærri fjórum sinnum meira en ökuglaðasti norski þingmaðurinn, níu sinnum meira en mesti ökuþórinn á sænska þinginu. Að hann hafi ekið um á eigin bíl þrátt fyrir skýrar reglur um annað, að hann hafi rukkað tvöfalt það sem kostar að reka bílinn, að hann hafi rukkað fyrir ferðir sem hann fór í á eigin vegum en ekki þingsins, meðal annars í kosningabaráttunni. Eða að hann hafi endurgreitt hluta upphæðarinnar eftir að upplýsingarnar voru gerðar opinberar. Enda var sérstaklega tekið fram í bréfi til siðanefndar að ekki stæði til að „fjalla um eða skera úr um sannleiksgildi“ ummælanna. Sami þingmaður og skók vísifingri að Þórhildi Sunnu, hafði áður sagt að sjálfur hefði hann átt að keyra meira á kostnað almennings: „Ég ætla að bæta úr því.“
„Við þurfum að gera meiri kröfur. Kröfur um heiðarleika, að valdhafar okkar axli ábyrgð,“ segir Karl Ágúst Úlfsson í forsíðuviðtali Stundarinnar.
Skortur á ábyrgð
Áður hafði forsætisnefnd hafnað því að taka akstursgreiðslurnar fyrir. Engin ástæða þótti til að vísa málinu til siðanefndar – aðeins kvörtun Ásmundar. Ekki þótti heldur ástæða til að vísa til siðanefndar fullyrðingum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, um að allir þingmenn hafi tjáð sig með sama hætti og gert var á Klaustri, að þingmenn flestra flokka hafi jafnvel viðhaft enn verri ummæli en féllu þar. Né þótti heldur ástæða til að skoða hvort kynferðisleg áreitni þingmanns Samfylkingarinnar væri brot á siðareglum, þegar hann hafði sjálfur játað brot sitt og vikið tímabundið af þingi.
Á endanum var Þórhildur Sunna sú eina sem sætti ábyrgð, á þeim forsendum að gagnrýni hennar hefði einkennst af „æsingi“ og verið til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi, skaða ímynd þess og hafa neikvæð áhrif á traust almennings til þingsins. Eins og það sé ekki þekkt stef að konur megi ekki æsa sig. „Hún er fokking tryllt,“ sögðu þingmennirnir á Klaustri um kvenkynsformann stjórnmálaflokks, „húrrandi klikkaða kunta“. Í akstursmálinu þótti of langt gengið af þingmanninum að nota orðasambandið „rökstuddur grunur“, þar sem það hefur sérstaka merkingu í sakamálaréttarfari, jafnvel þótt orðin hafi fallið í almennri umræðu. Allt í einu skipti ekki lengur máli hvað hann gerði, heldur hvað hún sagði. Eins og gjörðir hans hefðu ekki meira að segja en gagnrýni hennar. Gjörðir þeirra allra sem hafa staðið frammi fyrir þjóðinni og farið frjálslega með sannleikann, snúið út úr staðreyndum, leynt upplýsingum, beitt blekkingum og valdníðslu.
Varnartaktíkin virkar. Nú er farið að tala um mannorðsmorð á Ásmundi. Í sumar birtist grein eftir tvo Sjálfstæðismenn þar sem vegið var að fjölmiðlum fyrir umfjöllun um akstursgreiðslurnar, því haldið fram að stjórnmálamenn með sjálfstæðan vilja væru orðnir að „pólitískum skotspónum umbótaafla“ sem veigra sér ekki við lygar eða útúrsnúninga. „Allir sem hafa einhverja sómakennd í brjósti sér hljóta að mótmæla því sem þingmaðurinn hefur þurft að þola.“ Með því að stilla sér upp sem fórnarlömbum öryrkja, sem misbauð svo orðbragð þeirra að hún tók samtalið á Klaustri upp, hafa Miðflokksmenn aukið fylgi sitt. Á endanum er það samt á ábyrgð okkar að setja mörk og skilgreina í hvers konar samfélagi við viljum búa.
Við vitum ekki hvernig úrskurður siðanefndar verður, en við vitum hvað þeir gerðu og það gleymist ekki.
Athugasemdir