Á fimmta tug fólks sem segist félagar í Pírötum hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem þingmenn flokksins eru gagnrýndir fyrir að hafa „farið offari“ gegn Birgittu Jónsdóttur á félagsfundi mánudaginn 15. júní síðastliðinn.
Á fundinum var tilnefningu Birgittu, stofnanda og fyrrverandi forystukonu Pírata, í trúnaðarráð flokksins hafnað með 55 af 68 greiddum atkvæðum eftir að þingmenn höfðu tekið afgerandi afstöðu gegn því að hún yrði kjörin. Fjallað hefur verið ítarlega um málið í fjölmiðlum og birti Viljinn.is myndband þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður lýsti reynslu sinni af því að vinna með Birgittu og vandaði henni ekki kveðjurnar.
„Við undirrituð, félagar í Pírötum, hörmum þá atburðarás sem átti sér stað á félagsfundi mánudaginn 15. júlí síðastliðinn. Umræddur fundur var félagsfundur og auglýstur sem slíkur og hvergi í fundarboði kom fram að persónulegt uppgjör milli nokkurra félagsmanna skyldi eiga sér stað,“ segir í yfirlýsingu sem fylgir undirskriftasöfnun sem sett var af stað í gær. 42 hafa lagt nafn sitt við yfirlýsinguna þegar þetta er skrifað, þar á meðal Álfheiður Eymarsdóttir, varaþingkona flokksins, Guðrún Ágústa Þórdísardóttir, fyrrverandi varaþingkona og Þórólfur Júlían Dagsson, oddviti Pírata í Reykjanesbæ.
„Þingmenn Pírata og annað valdafólk innan flokksins sem tóku til máls á fundinum fóru offari gegn einum félagsmanni. Sú opinbera aðför, óháð því hvaða stöðu umræddur félagsmaður gegndi áður og hvað kann að hafa farið aðila á milli fyrr, er með öllu ólíðandi.Öllum skal sýnd kurteisi og virðing, sérstaklega þegar rætt er um og/eða talað til ákveðinna einstaklinga. Framkoma þeirra sem fóru offari á fyrrnefndum fundi er ámælisverð, engum til gagns, og ber að fordæma.Þá skyldi ekki líta hjá stöðu þeirra sem um ræðir, en það traust sem fulltrúum grasrótar á Alþingi er falið er ekki sjálfsagður hlutur og bíður eðlilega hnekki, innan hreyfingarinnar sem utan, þegar komið er fram með þessum hætti.“
Athugasemdir