Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vill að nefndir Alþingis skoði málefni Heilsustofnunar í Hveragerði ofan í kjölin. Eftirlit þurfi að vera með því hvernig farið sé með almannafé.
Í frétt í síðasta tölublaði Stundarinnar kom fram að mikil óvissa hafi verið um stefnu stjórnenda Heilustofnunar í Hveragerði. Starfslokasamningur var gerður við Harald Erlendsson, forstjóra og yfirlækni stofnunarinnar, án fyrirvara og skýringa. Enginn starfandi geðlæknir er nú hjá stofnuninni, þrátt fyrir að geðendurhæfing sé eitt af verkefnum í nýjum 875 milljóna króna samningi hennar við Sjúkratryggingar Íslands.
Þá greiðir stofnunin háar fjárhæðir til stjórnarmanna og til móðurfélags síns sem sömu aðilar stýra. Gunnlaugur K. Jónsson stjórnarformaður fékk 1,2 milljónir króna í mánaðargreiðslur árið 2018, tvöfalt meira en árið 2017. Á því ári greiddi Heilsustofnun 40 milljónir króna til móðurfélags síns, Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ), auk þess að borga nær annað eins í afborganir af þeim lánum sem hvíla á fasteignum stofnunarinnar, sem eru þó skráðar í eigu Náttúrulækningafélagsins.
„Til þess að hafa það algerlega á hreinu, þá fylgir ábyrgð því að fara með almannafé“
„Mér væri svo sem alveg sama um þetta ef þau væru með sjálfstæðan rekstur en heilsuhælið er með nýjan samning við Sjúkratryggingar Íslands um 875 milljónir af skattfé á ári,“ skrifar Björn Leví í færslu á Facebook. „Til þess að hafa það algerlega á hreinu, þá fylgir ábyrgð því að fara með almannafé. Sú ábyrgð hvílir á því eftirliti sem þarf að fara fram um hvort við séum að fá það sem við borgum fyrir. Mér finnst þetta augljóslega vera mál sem nefndir þingins (Fjárlaganefnd, Velferðarnefnd og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd) þurfa að skoða ofan í kjölinn.“
Athugasemdir