„Sæll Bóbó. Hérna eru póstarnir okkar Simma. Hann er að bjóða allt að 250 kr. fyrir 700 [grömm] + sem mér finnst vera mjög gott verð,“ segir Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri og annar stærsti eigandi Samherja á Íslandi, í tölvupósti til Sigtryggs Gíslasonar, þáverandi skipstjóra á togaranum Björgvin EA-311 og núverandi skipstjóra á togaranum Kaldbaki, í apríl árið 2011. Sigtryggur gengur undir gælunafninu „Bóbó“ og er þekktur sem slíkur. „Simmi“ sem nefndur er í tölvupóstinum er Sigmundur Andrésson, framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Samherja í Þýskalandi, Icefresh Gmbh.
Í tölvupóstunum eru mennirnir þrír, sem allir starfa innan Samherjasamstæðunnar, að ákveða verð á ferskum karfa, sem vinna átti í Þýskalandi, í viðskiptum innan samstæðunnar. Björgvin EA-311 veiðir fiskinn og Icefresh Gmbh vinnur karfann í fiskvinnslu sinni í Frankfurt í Þýskalandi og selur hann.
Æ algengara hefur orðið að stórútgerðir eins og Samherji, Ísfélagið í Vestmannaeyjum, HB Grandi eða Vísir eigi sjálf mörg eða jafnvel öll fyrirtækin sem koma að veiðum, vinnslu og sölu á þeim fiski sem veiddir eru á togurum þeirra. Sökum þessa er mikilvægt að viðskiptin með fiskinn innan samstæðnanna fari fram á viðskipta- og markaðslegum forsendum. Erfitt getur hins vegar verið að vita hvort svo er þar sem öll virðiskeðjan í fiskvinnslunni er á sömu hendi.
Athugasemdir