Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í forsætisnefnd Alþingis, segir „ótækt“ að pólitískir fulltrúar hafi úrslitavaldið við afgreiðslu mála er varða brot á siðareglum.
Þetta kemur fram í bókun sem hann lagði fram á fundi forsætisnefndar á föstudag.
Eins og fram kom í fjölmiðlum í dag hefur nefndin fallist á þá niðurstöðu siðanefndar að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi gerst brotleg við siðareglur þegar hún sagði í Silfrinu þann 25. febrúar 2018 að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé.
Guðjón setur sig ekki upp á móti niðurstöðu forsætisnefndar en segist telja mikilvægt að siðanefndin hafi „fullt og milliliðalaust umboð til að kveða upp úrskurði um álitamál sem upp koma vegna þingmanna“. Fyrirkomulag þar sem forsætisnefnd sé „milliliður við slíka afgreiðslu“ hafi reynst gallað.
„Eftir að þingið setti sér siðareglur hefur aðeins einn þingmaður verið talinn brotlegur við þær, fyrir að taka þátt í opinberri umræðu um meint brot annars þingmanns, og þá vegna orðalags fremur en inntaks,“ segir Guðjón í bókun sinni og bætir því við að þetta sé „óheppilegt fyrir þingið, ásýnd þess og störf“. Engu að síður hljóti hann að „lúta niðurstöðu siðanefndar“.
Athugasemdir