Á Íslandi ríkir trúfrelsi og er það talinn mikilvægur hornsteinn í lýðræðinu að mega iðka hverja þá trú sem viðkomandi sýnist, hvort sem það er á stokka og steina, Jesú Krist, Allah, Óðin eða nornaseið, þess vegna. Þessu stjórnarskrárvarða trúfrelsi fylgir rétturinn til að tala opinskátt um trú sína. Ég væri í fullum rétti að lýsa því yfir á samfélagsmiðlum að ég tryði á söguna um Adam og Evu. Þannig væri mér frjálst að afneita þróunarkenningunni ásamt ævistarfi ótal vísindamanna sem sýna fram á að líf hafi þrifist á jörðinni í milljarða ára – sama hversu órökrétt einhverjum kynni að þykja sú trúarsannfæring mín. Þess í stað mætti ég halda því fullum fetum fram að fyrir nokkrum þúsund árum hafi Guð skyndilega orðið húrrandi framkvæmdaglaður og skapað heiminn á sjö dögum. Konur mætti ég skilgreina sem rifbeinsafsteypur Adams – óháð því hversu niðrandi einhverjum kynni að finnast það – og gera þær ábyrgar fyrir falli mannkyns því Eva fékk sér epli forðum daga. Ég mætti leggja fullan trúnað á tvö þúsund ára gamla sögu um konu sem varð ólétt af heilögum anda og ól af sér mann sem gat gengið á vatni. Mér væri frjálst að halda því á lofti að samkvæmt ritningunni væru nýbakaðar mæður landsins óhreinar í þrjátíu daga eftir að þær fæða sveinbarn í heiminn, en í sextíu daga eftir að þær fæða stúlkur. Konur á blæðingum væru auðvitað óhreinar upp fyrir haus og væru best geymdar í helli. Þótt þjóðkirkjan á Íslandi hafi lagt blessun sína yfir samkynhneigða væri ekki hægt að banna mér að vitna í óhugnanlega versið í bókinni heilögu um að samkynhneigð sé dauðasök meðal karla (en konur eru náttúrlega bara rifbein og því virðast textahöfundar ekki hafa sérlegar áhyggjur af kynlífi þeirra). Ég mætti nota trúarsannfæringu mína til að setja mig upp á móti rétti kvenna til þungunarrofs og saka skoðanaandstæðinga mína um að vera hlynntir barnsmorðum, án þess eins að brjóta gegn reglum Facebook. Eftir að hafa skrifað fjálglega um trúmál mín á internetinu væri mér frjálst að velja mér íbúðahverfi af handahófi og banka upp á hjá hverjum einasta íbúa, að þeim forspurðum, til að ræða við viðkomandi um sannfæringu mína. Ég mætti meira að segja prenta bæklinga sem boða fagnaðarerindi mitt og ýta þeim inn um bréfalúguna hjá ókunnugu fólki, óháð því hvort það kærði sig hið minnsta um slíkt.
„Þú mátt trúa gömlum kreddum úr fornum trúarritum en ekki glænýjum fréttaflutningi um kynferðisofbeldi“
Þú mættir taka bæklinginn upp af forstofugólfinu þínu og henda honum rakleiðis í ruslið. Þér væri líka frjálst að móðgast fyrir hönd vísindamanna, kvenna, samkynhneigðra og nýfæddra barna. En þú yrðir að virða frelsi mitt til að leggja trúnað á þúsund ára gamlan trúarbókstaf, skrifaðan af löngu látnu fólki með annað gildismat en tíðkast í dag.
Þú mátt hins vegar ekki trúa bestu vinkonu þinni ef hún rýfur þögnina um að henni hafi verið nauðgað af þjóðþekktum manni – nema þú gerir slíkt í kyrrþey og dyljir stuðning þinn fyrir öðru fólki. Bandamenn hans mega þó lýsa yfir stuðningi sínum eins og þá lystir. Þú mátt ekki taka opinbera afstöðu með ástvini þínum þegar viðkomandi heldur því fram að nafngreindur einstaklingur hafi beitt sig kynferðisofbeldi, sama hversu harkalega er ráðist að trúverðugleika ástvinar þíns. Þú mátt trúa gömlum kreddum úr fornum trúarritum en ekki glænýjum fréttaflutningi um kynferðisofbeldi, þá ertu á hálum ís. Né máttu endursegja slíkar fréttir út frá eigin sannfæringu án þess að eiga skaðabótamál yfir höfði þér, jafnvel þótt þú nefnir engin nöfn, jafnvel þótt þér sé ekki einu sinni kunnugt um hverjir hinir grunuðu eru. Þér er nefnilega lagalega óheimilt að halda öðru fram en að þú trúir á sakleysi grunaðra ofbeldismanna, eða leyfir þeim að minnsta kosti að njóta vafans, óháð því hversu nákominn brotaþolinn er þér eða hversu lífsnauðsynlegur stuðningur þinn væri geðheilsu hans. Þú mátt ekki verja heiður fólks sem þú elskar þegar það lendir milli tannanna á Virkum í athugasemdum og er sakað um að hafa logið til um ofbeldið sem það var beitt, eða kallað það yfir sig með einhverjum hætti.
Erkibiskup Suður-Afríku, friðarverðlaunahafinn Desmond Tutu, sagði eitt sinn að þegar ranglæti er annars vegar er ekki hægt að vera hlutlaus, þá er maður að taka afstöðu með kúgaranum. Hlutleysi er alltaf stuðningur við ríkjandi ástand. Grunnregla réttarríkisins um að fólk sé saklaust uns sekt þess er sönnuð er vissulega mikilvæg og markmið þessara skrifa er ekki að hún sé afnumin. Hvað kynferðisofbeldi snertir er hið ríkjandi ástand hins vegar óviðunandi. Það er alltof útbreitt. Miðað við algengi þess eru brotabrot málanna kærð til lögreglu. Af þeim sem þó rata á borð yfirvalda er meirihlutinn felldur niður. Alltof fáir ofbeldismenn eru sakfelldir og fá að halda óáreittir áfram að eyðileggja líf annarra.
Þér er frjálst að trúa því að konur beri ábyrgð á erfðasyndinni, en þú mátt ekki trúa að þær segi satt um kynferðisofbeldi.
Allavega ekki þegar þær þurfa mest á stuðningi þínum að halda.
Athugasemdir