Jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem málflutningi Helgu Daggar Sverrisdóttur, grunnskólakennara á Akureyri og fulltrúa í vinnumhverfisnefnd sambandsins, um falskar ásakanir nemenda á hendur kennurum er mótmælt. „Nefndin telur málflutning kennarans vera þess valdandi að grafa undan trausti nemenda og forráðafólks til kennara og skólakerfisins,“ segir meðal annars í ályktuninni og þá er málflutningurinn sagður illa rökstuddur og ganga í bága við skyldur skólakerfisins við barnavernd.
Stundin flutti frétt í síðasta tölublaði, 7. júní síðastliðinn, þar sem skrif Helgu Daggar um meintar lygar nemenda upp á kennara voru til umfjöllunar.
Í greinum á vefritinu Kjarnanum hefur Helga Dögg haldið því fram að nemendur bæði beiti kennara ofbeldi í umtalsverðum mæli og einnig að nemendur ljúgi ofbeldi upp á kennara sína, bæði líkamlegu og kynferðislegu. Engar röksemdir eru lagðar fram að baki þeim skrifum Helgu Daggar.
Framkvæmdastjóri UNICEF gagnrýndi skrifin og það gerðu einnig fleiri. Formaður Kennarasambandsins, Ragnar Þór Pétursson, sagði í samtali við Stundina vonast til að Helga Dögg myndi leggja fram heimildir fyrir fullyrðingum sínum. Það hefur Helga Dögg ekki gert og þegar Stundin hafði samband við hana neitaði hún að tjá sig um málið.
Ályktun jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands er eftirfarandi:
Jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands mótmælir málflutningi Helgu Daggar Sverrisdóttur grunnskólakennara í Kjarnanum 31. maí síðastliðinn um falskar ásakanir nemenda um meint ofbeldi kennara. Nefndin telur málflutning kennarans vera þess valdandi að grafa undan trausti nemenda og forráðafólks til kennara og skólakerfisins. Umræddur málflutningur er illa rökstuddur og gengur í bága við skyldur skólakerfisins við barnavernd og þá frumskyldu kennara að valdefla nemendur, virða þá og vernda. Nauðsynlegt er að samfélagið í heild hjálpist að við að bjóða ungu fólki upp á góð uppeldisskilyrði þar sem hlúð er að siðferðisvitund og virðingu. Ef upp koma alvarleg mál er mikilvægt að verkferlar séu skýrir og allir, starfsfólk skóla, forráðafólk og nemendur þekki hvernig beri að bregðast við.
F.h. jafnréttisnefndar,
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir forkona
Athugasemdir