„Þegar svona hlutir gerast, þjappar þorpið sér saman. Okkur rennur blóðið til skyldunnar þegar svona ung athafnakona eins og Jóna er, sem er að gera svona góða hluti í lífinu og ekki síst tengt barnamenningu, lendir í svona aðstæðum. Megnið af okkar kennurum hefur á einn eða annan hátt unnið með Jónu og þekkjum allar til hennar góðu verka. Þetta er því sameiginlegt átak Kramhússins og kennaranna, því við viljum gera okkar til að aðstoða hana við það sem framundan er,“ segir Vigdís Arna hjá Kramhúsinu.
Það var laugardaginn 1. júní síðastliðinn sem Jóna lenti í bílslysi í Langadal í Húnavatnssýslu, þegar hún var á leið til Reykjavíkur. Með henni í bílnum var Ugla dóttir hennar, sem slapp ómeidd frá slysinu, sem þykir mikil mildi. Jóna varð hins vegar fyrir mænuskaða og er enn á gjörgæslu eftir slysið.
Jóna er stofnandi barnamenningarhátíðarinnar Kátt á Klambra sem hefur verið haldin í Reykjavík þrjú síðustu sumur við góðar viðtökur barna og fjölskyldna þeirra. „Nafnið á viðburðinum hjá okkur er Kátt í Kramhúsinu, sem er auðvitað vísun í Kátt á Klambra. Við gáfum viðburðinum þetta nafn henni til heiðurs og að sjálfsögðu með fullu samþykki fjölskyldu hennar,“ segir Vigdís Arna.
Að sögn Vigdísar Örnu er dagskráin í Kramhúsinu mjög í anda Jónu, því allir sem hana þekkja viti að hún elski að dansa og að barnamenning sé henni hjartans mál. „Við ákváðum að hafa dagskrána tvískipta, hafa hana fjölskyldumiðaða annars vegar og dansdjamm fyrir fullorðna hins vegar, því okkur finnst það vera í hennar anda,“ útskýrir hún.
Verið er að leggja lokahönd á skipulagningu dagskrár Kátt í Kramhúsinu. Milli klukkan 11 og 1 verður hún tileinkuð fjölskyldum, meðal annars með jóga, latin fitness, afró og pilates. Á milli klukkan 16 og 18 verður svo dansdjamm, með fjölbreyttum dönsum á borð við Broadway-, Beyoncé og 90’s dansa. Kennt verður í báðum sölum Kramhússins og „hver einasta króna rennur óskipt til Jónu“, eins og Vigdís Arna segir.
Opnað verður fyrir skráningu í kvöld. Hægt verður að fylgjast með á Facebook-síðu og heimasíðu Kramhússins.
Margir hafa á síðustu dögum sett sig í samband við fjölskyldu Jónu og boðist til að hjálpa á einn eða annan hátt. Auk framtaks kvennanna í Kramhúsinu hafa til að mynda ljósmyndararnir Brynjar Snær og Lilja Jóns boðið myndatökur, sem þau þiggja ekki greiðslur fyrir en vilja þess í stað að kúnnar þeirra styrki Jónu.
Styrktarreikningur var opnaður fyrir Jónu fljótlega eftir slysið. Númer styrktarreikningsins er 528-14-401998 og kennitala 701111-1410.
Athugasemdir