Fyrir nokkrum árum fór ég í kennaranám. Þá var ég búin að koma upp fjórum börnum og vegna þess hve dugleg við vorum að skipta um umhverfi hef ég verið foreldri með barn/börn í átta grunnskólum á landinu, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, í um 25 ár. Ég kynntist því allskonar umsjónarkennurum og aukakennurum sem voru misgóðir að kenna eins og gengur með okkur öll, en það sem skipti mestu máli varðandi hæfni kennara barna minna var samskiptahæfnin. Hvernig þeir töluðu til þeirra og komu fram við þau. Sumir kennarar komu vel fram við þau, hlustuðu á þau og sýndu þeim vinsemd og virðingu. Þeir uppskáru vinsemd og virðingu barnanna minna. Börnin mín fengu líka kennara sem sýndu þeim vanvirðingu og þeim leið illa nálægt þeim og gátu ekki treyst þeim enda kom það fyrir að kennari sagði eitthvað vont við þau eða eitthvað um þau sem var ekki satt og það gleymist ekki svo lengi sem þau lifa.
Í kennaradeild HA fékk ég það staðfest sem ég upplifði sem foreldri, að falleg og góð viðhorf kennara og skólastjórnenda gagnvart börnum skipta öllu máli. Ég lærði að ef kennsla leiðir ekki til náms þarf að breyta kennslunni, ekki nemandanum. Ég lærði að það er mikilvægt að börnin finni sig örugg í skólanum og geti treyst kennaranum sínum og skólastjórnendum og ég lærði það líka að það er mikilvægt að hlusta á börnin með opnum huga og leita lausna í samvinnu við þau og foreldra þeirra. Það skiptir máli að spyrja góðra spurninga og rannsaka mál, sem koma upp, frá öllum hliðum. Það er vont ef börn upplifa sig einskis virði og valdalaus í skólaumhverfinu og þau eiga að vera þátttakendur í því eins og kennarar og annað starfsfólk því þau búa í lýðræðissamfélagi. Gleymum því ekki að skólinn er vinnustaður barnanna. Þeirra upplifun og þeirra þátttaka skiptir okkur öll máli og kemur okkur öllum við.
„Hún virðist vera í einhverskonar herferð gegn börnum sem segja frá“
Nú hef ég lesið þrjár greinar eftir Helgu Dögg Sverrisdóttur birtar í fjölmiðlinum Kjarninn 22. maí, 24. maí og 2. júní síðastliðinn Hún virðist vera í einhverskonar herferð gegn börnum sem segja frá og telur það að hlusta á börn, geta vegið að starfsheiðri kennara. Hún segir að fólki sé frjálst að ásaka fólk án afleiðinga slíkt fólk sé börnum slæmar fyrirmyndir. Í sömu grein ásakar hún börn fyrir að ljúga, talar um þau sem skemmd epli og að við fullorðna fólkið eigum að fara varlega í að hlusta á þau. Ég velti fyrir mér hvort hún sé góð fyrirmynd?
Helga Dögg segir meðal annars. „Grunnskólakennarar hafa upplifað að nemandi sýni áverka, s.s. marbletti og klór, sem enginn veit hvernig er tilkominn nema nemandinn sjálfur, til að ná sér niðri á kennara. Það þarf ekki annað en að kennari setji nemanda mörk. Skólareglur henta ekki öllum og einstaka nemandi telur sig yfir skólareglur hafinn. Stjórnendum er blandað í málin og stundum stoppa málin þar en alls ekki alltaf. Foreldrar taka oft á tíðum upp hanskann fyrir börn sín og verða vart viðræðuhæf um málið. Farið er með barn til læknis og áverkavottorð fengið. Barninu skal trúað hvað sem öðru líður. Á stundum eru barnaverndarnefndir inni í málunum þar sem rætt er við aðila til að fá heildarmyndina. Í einstaka tilfellum blandast lögregla í málið þar sem yfirheyrslur fara fram. Þegar hér er komið við sögu eru hefndnaraðgerðir barns og foreldra þvílíkar að vart verður stoppað. Kennarar hafa mátt ráða sér lögfræðing til að vinna úr máli sem kemur svo á daginn að var „allt í plati“. Nemandi hefur náð sér í stjórnunartæki.“ (Helga Dögg Sverrisdóttir, 24. maí 2019).
„Þegar hér er komið við sögu eru hefndnaraðgerðir barns og foreldra þvílíkar að vart verður stoppað“
Hér er barni lýst sem einhverskonar skrímsli. Vissulega talar hún um í þessari grein að flest börn séu til fyrirmyndar en...
...er ekki bara ofur eðlilegt að skólastjórnendur séu settir inn í málin? Er ekki eðlilegt að foreldrar standi með barninu sínu? Er ekki eðlilegt að farið sé með barn með áverka til læknis og áverkavottorð sé fengið? Er ekki eðlilegt að barnaverndarnefnd, sem er börnum til verndar, sé sett inn í málin? Er ekki eðlilegt að barnið njóti vafans fram yfir fullorðna einstaklinginn? Er eðlilegt að börn séu þögguð niður þegar þau segja frá ofbeldi?
Ég er verulega hugsi yfir þessum viðhorfum hennar gagnvart börnum og vona að kennarar almennt séu komnir lengra í þróunarsögunni en þetta. Ef barn lendir í svona aðstæðum er klárt að það er ekki með pálma í höndum heldur í verulegri vanlíðan. Ef nemandi er kominn á þessa braut finnst mér trúlegt að eitthvað mikið sé að í skólanum eða heima sem virkilega þarf hjálpa honum við og vinna vel með. Það skiptir mestu máli að beita virkri hlustun og fá fagfólk til að finna lausn á vandanum. Ef barn er í alvöru í þeirri stöðu að það telji sig þurfa að ljúga upp á kennarann sinn hlýtur eitthvað mikið að vera að og það að kennari fari í stríð við börn sem ljúga og skrifi hatursfullar greinar um að börn stjórni skólum með ofbeldi getur varla hjálpað einum eða neinum.
„Ef barn er í alvöru í þeirri stöðu að það telji sig þurfa að ljúga upp á kennarann sinn hlýtur eitthvað mikið að vera að“
Börn eru ekki skemmd epli sem leika sér að því að eyðileggja mannorð kennara og vega að andlegri heilsu þeirra. Börn eru ekki vélar sem geta bara látið sem ekkert sé þegar þeim líður illa. Þau eru ekki með fullþroskaðan heila og oft ráða þau illa við tilfinningar sínar og það má. Þau eru börn. Fullorðna fólkið í skólanum á að hafa faglega þekkingu á því hvernig best er að hjálpa þeim í gegnum erfiðleika og vonda líðan. Helga Dögg vill meina að þegar nemendur hafa ásakað kennara að ósekju eða logið einhverju upp á þá sé traustið farið og ótti kennarans við nemandann verði viðvarandi. Mér finnst skrítið og ófaglegt af Helgu Dögg að kalla nemendur gerendur og kennara þolendur þar sem vitað er að börn eru upp á fullorðna fólkið komin og hafa lítið sem ekkert vald á sínum vinnustað. Valdastaðan á milli nemenda og kennara er mjög ójöfn og kennarinn er alltaf fullorðni einstaklingurinn, með ábyrgðina, menntunina, þekkinguna og fagmennskuna.
Hún talar um að í Danmörku sé þetta stórt vandamál og að þar sé viðurkennt að „menning innan skólana þurfi að breytast þannig að unnið verið kerfisbundið með ofbeldið“. Það segir sig auðvitað sjálft að ef ofbeldi er til staðar þarf menning að breytast, bæði í skólum sem annarsstaðar. Þarna getur vandinn verið lélegir stjórnendur frekar en börn með valdagræðgi og auðtrúa illa innrættir foreldrar. Getur ekki frekar verið að þetta sé vandamál sem liggur í lélegri stjórnun? Hvers konar skólastjórnendur gefa færi á því að svona ástand getur skapast milli nemenda og kennara? Hvaða viðhorf eru í alvöru ríkjandi gagnvart börnum í skóla þar sem svona ástand hefur skapast? Ég sé ekki að hægt verði að leysa þennan vanda án þess að hafa börnin og foreldrana með í ráðum, því skólinn er jú fyrir þau er það ekki?
Í þriðju greininni, talar Helga Dögg um íþróttakennara í Danmörku sem lenti í strákum sem lugu upp á hann. Það getur alltaf gerst að fólk lendir í fólki sem lýgur uppá það og því er ég sammála henni um að mikilvægt sé að fræða fólk á öllum aldri um afleiðingar vondrar hegðunar gagnvart öðrum. Það má aldrei sofna á verðinum varðandi ofbeldi, sama í hvaða mynd það birtist.
„Mér fallast hreinlega hendur þegar ég les greinar eftir kennara sem vilja þagga niður í börnum vegna hættunnar á að mannorð okkar geti beðið hnekki“
Mér finnst svo rosalega mikilvægt að gefa börnum rödd í okkar svokallaða lýðræðis- og jafnréttissamfélagi, og mér fallast hreinlega hendur þegar ég les greinar eftir kennara sem vilja þagga niður í börnum vegna hættunnar á að mannorð okkar geti beðið hnekki. Kennarar eru fullorðið fólk með menntun og úrræði til að takast á við allskonar mál af allskonar toga. Þeir hafa verkfærin og þekkinguna til að kenna góð samskipti og skapa traust og vingjarnlegt andrúmsloft í skólanum. Kennarar eru fyrirmyndir og eiga að ganga á undan með góðu fordæmi og benda á það sem vel er gert og hrósa fyrir fallega framkomu og takast á við þann vanda sem upp kemur hverju sinni. Kennum börnum að þekkja muninn á réttu og röngu og að kljást við ýmis álitamál, ekki bara í heimspekitímum. Notum tækifærin þegar þau gefast. Það á ekki að þurfa sérstakt hugrekki til að segja frá en það virðist enn vera þannig menning í okkar samfélagi. Þess vegna vil ég afskrímsla orðið klöguskjóða og í dag gerist ég svo djörf að halda því að nemendum mínum að orðið klöguskjóða sé flott og samheiti þess sé hetja. Það er sjálfsagt og eðlilegt að segja frá. Hvetjum þau til að segja frá því sem þau sjá og heyra því ef allt er í lagi þá má það heyrast og ekkert er eðlilegra en að hafa skólastofuna opna og að skólastjórnendur droppi við í kennslustofum oft og iðulega. Skólastjórnendur eiga að vera sýnilegir þátttakendur í skólasamfélagi kennara og barna og gæta þess að allt gangi vel og allt fólk í skólanum sé vinir. Ég sé ekkert að því að taka þessa umræðu um ofbeldi í skólum en finnst ekki í lagi að hún sé einhliða einskorðuð við það að börn séu skrímslavædd sem gerendur. Því bið ég ykkur kæru kennarar að fara ekki á þetta plan því það grefur undan ímynd kennara sem fagfólki.
Kveðja Elín Eddudóttir, umsjónarkennari á miðstigi.
Athugasemdir