Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað ritstjórn Fréttablaðsins brotlega við siðareglur félagsins. Telur nefndin að ritstjórnin hafi með ámælisverðum hætti gerst sek um óvönduð vinnubrögð í kjölfar fréttar með fyrirsögninni „Auglýsa eftir brjóstamjólk handa huldubarni.“
Í fréttinni, sem birt var á forsíðu Fréttablaðsins 19. mars, var sagt frá ósk ónafngreinds fólks til „mömmuhópa“ á Facebook um brjóstamjólk handa dauðvona barni. Rætt var við tvo yfirmenn á Landspítalanum þar sem brjóstamjólkurbanki er starfræktur, sem könnuðust ekki við alvarlega veikt eða dauðvona barn sem þyrfti brjóstamjólk. Annar þeirra veitti blaðamanni tilefni til að tengja fréttina við vinsældir brjóstamjólkur meðal vaxtarræktarfólks. Segir í kærunni, sem kom frá fjölskyldu dauðvona barnsins, að fréttin hafi valdið „óþarfa áhyggjum og angist“ og orðið til þess að sumar mömmur úr „mömmuhópunum“ hafi hætt að gefa brjóstamjólk til fjölskyldunnar. Fullyrðir kærandi að Kristín Þorsteinsdóttir útgefandi og Ólöf Skaftadóttir ritstjóri hafi ekki svarað né sinnt skilaboðum um að hafa samband.
Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina, Sveinn Arnarson, hefði ekki brotið siðareglur. Í ljósi þess hversu alvarlegt og viðkvæmt umfjöllunarefnið var, hafi ritstjórn hins vegar eftir samtöl við aðila málsins og yfirlýsingu frá félaginu Einstök börn, stuðningsfélags barna með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni, haft fullt tilefni til að taka upp sjónarmið þeirra í prentútgáfu blaðsins, þegar í ljós kom um hvaða fólk var að ræða og að brjóstamjólkuróskin hafði ekkert með vaxtarækt að gera. „Siðanefnd telur að með því að láta þetta ógert hafi ritstjórn Fréttablaðsins með ámælisverðum hætti gerst sek um óvönduð vinnubrögð og brot á 3. grein siðareglna BÍ,“ segir siðanefndin.
Athugasemdir