Í dag berjast börn fyrir framtíðinni. Af því að framtíðarsýnin sem við sköpuðum – án þess endilega að ætla okkur það – varð þessi:
Hér á Íslandi gætum við staðið frammi fyrir því sem samsvarar Eyjafallajökulsgosi á sjö ára fresti, en tíðni eldgosa gæti aukist vegna bráðnunar jökla. Flóð, fárviðri og eldar verða tíðari og heilsa landsmanna versnar. Iðgjöld skyldutrygginga hækka vegna aukinnar hættu á hamförum.
Yfirborð sjávar hækkar, sem lendir líklegast verst á lágsvæði á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjarnesskaganum. Ef hlýnun jarðar nær 2 gráðum gæti úrkoma hér á landi aukist um sex prósent, ákefð úrkomu eykst og rigningarlausum dögum fækkar. Með hlýnandi loftslagi verður landið grænna og nýjar tegundir geta numið land. Um leið koma skordýrin, fimm nýir skaðvaldar gætu herjað á íslenskan trjágróður árið 2050, raskað vistkerfum og aukið moldrok. Skordýrasérfræðingur óttast hið versta: „Það getur einfaldlega drepið trén.“ Við dauða trjágróðurs vegna skordýrafaraldurs hættir gróðurinn að binda kolefni, rotnar og fer að gefa frá sér kolvetni. Fuglar, æðaplöntur og spendýr eru á válista Náttúrufræðistofnunar, yfir tegundir sem eru í hættu á að deyja út hér á landi. Lundinn, táknmynd íslenskrar ferðaþjónustu, er í bráðri hættu líkt og skúmur og fjöruspói. Snæuglan er í hættu. Landselur og sléttbakur eru í bráðri hættu, útselur og steypireyður töluverðri. Af 85 æðaplöntum lentu 56 á válista. Glitrósin er á meðal tegunda sem eru í bráðri hættu á að deyja út. Áhrifa súrnunar sjávar á fiskveiði birstis fyrr hér en annars staðar vegna landfræðilegrar stöðu Íslands og landbúnaðarframleiðsla laskast vegna hruns vistkerfa. Varað er við því að afleiðingar af loftlagsneyð verði vannæring, fátækt, fólksflutningar og vopnuð átök.
Framtíðarsýnin er myrk, byggð á sérfræðiþekkingu vísindamanna, tilkomin vegna loftlagsneyðar. Við getum haft áhrif á hana, enn er ekki orðið of seint að spyrna við þessari þróun.
„Það er áfall fyrir mig að lifa í þessu umhverfi“
„Við erum bara börn og framtíð okkar skiptir máli,“ hrópa börnin sem mótmæla aðgerðarleysinu á Austurvelli, um leið og þau biðja okkur að muna eftir sér þegar við tökum ákvarðanir varðandi það hvernig við lifum lífinu.
Blessuð sé minning Skaftafellsjökuls
Tölum aðeins um jöklana. Veðurstofa Íslands spáir því að árið 2050 verði Snæfellsjökull, rómaður fyrir kyngimagnaðan kraft og paradís útivistarfólks, nánast horfinn af yfirborði jarðar. Undir lok 21. aldarinnar er því spáð að Langjökull hafi tapað 85 prósent af rúmmáli sínu. Smám saman hverfa þeir allir, jöklarnir. Vatnajökull mun lifa lengst.
Bóndi á Litla-Hofi í Öræfum hefur horft upp á þetta gerast: „Jöklarnir hafa þynnst svo gríðarlega og hlýnunin heldur áfram, þá gerist þetta hraðar og hraðar. Þegar ég man eftir mér fyrst þá var jökullinn eins og malbik. Þetta var slétt og lítið af sprungum. Það var ekki merkilegt að ganga á jökli, en núna fer maður varla.“ Frá árinu 2012 hefur þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði árlega tekið mynd af Skaftafellsjökli frá sama sjónarhorni. Fyrst um sinn var jökullinn breiður um sig en árið 2018 var hann hættur að sjást. „Blessuð sé minning Skaftafellsjökuls.“
„Blessuð sé minning Skaftafellsjökuls“
Grænlandsjökull bráðnar hraðar en áður var talið og ísinn á Suðurskautslandinu hverfur á methraða. Hundruð milljóna manna um allan heim lendir í hættu vegna hækkaðrar sjávarstöðu. Stórborgir á borð við New York, Sjanghæ og Jakarta eru í hættu. Landbúnaðarsvæði og vatnabúskapur verða fyrir óafturkræfum spjöllum. Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif þess þegar stór samfélög þurfa að flýja heimkynni sín verða ólík nokkru sem við höfum áður séð.
Sterkasta stelpa í heimi
„Þið luguð að okkur. Þið gáfuð okkur falskar vonir. Þið sögðuð okkur að framtíð okkar væri eitthvað sem við ættum að hlakka til,“ sagði Greta Thunberg, sextán ára stelpa sem fangaði athygli heimsins með beinskeyttum skilaboðum. Hún kemur frá Svíþjóð, sem gaf okkur sterkustu stelpur í heimi, skáldsagnapersónurnar Línu Langsokk og Ronju Ræningjadóttur. Og nú Gretu, sem stóð frammi fyrir þjóðarleiðtogum og brýndi fyrir þeim að nú væri tími til að panika, bregðast við líkt og húsið væri að brenna ofan af þeim, af því að annars gæti það orðið of seint.
„Krakkarnir geta byrjað á því að leggja farsímunum og labbað á Austurvöll,“ voru viðbrögðin á kommentakerfinu þegar sagt var frá tíu ára stelpu sem fagnaði afmælinu sínu með því að mótmæla á Austurvelli. Hún og allir vinir hennar sem voru til viðtals höfðu tekið meðvitaðar ákvarðanir um að breyta lífsstílnum í þágu umhverfisins. Líkt og Greta, sem ferðast ekki með flugvélum, en fjölskyldan er öll vegan, setti upp sólarrafhlöður á heimilinu, ræktaði eigið grænmeti og reynir að fara allar sínar ferðir á hjóli, eða rafmagnsbíl. En það er kannski auðveldara að gera lítið úr baráttu barnanna en að hlusta. Af því að ef við ætlum að virða óskir þeirra krefst það aðgerða. Aðgerða sem geta verið sársaukafullar.
„Heilaþvegið barn sem sé misnotað af fullorðnum með óheiðarlegum aðferðum“
Vegna baráttu sinnar gegn loftlagsneyð hefur Greta mætt hatri og hótunum. Fyrr á árinu óskaði hún eftir aðstoð við að svara rógburði, lygum og villandi áróðri gegn henni, svo hún gæti einbeitt sér að skólanum. Nema á föstudögum, þá skrópar hún til að sitja fyrir utan sænska þingið þar sem hún mótmælir því hversu hægt sænsk yfirvöld bregðast við vandanum. Þúsundir barna um allan heim hafa farið að fordæmi hennar, hér á Íslandi hafa börnin flykkst að Austurvelli og kallað eftir aðgerðum.
Hér hefur líka verið reynt að grafa undan trúverðugleika hennar. Á Útvarpi Sögu var því haldið fram að hún væri peð alþjóðlegra afla, „heilaþvegið barn sem sé misnotað af fullorðnum með óheiðarlegum aðferðum“, í ljósi þess að hún hitti páfann, talaði á fundi Sameinuðu þjóðanna og var tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels. Sjálf hefur hún svarað slíkum samsæriskenningum, hún starfi á eigin vegum, tali aðeins fyrir sjálfa sig. Hæðst var að henni í pistlinum Heilög Greta, sem birtist á Viðskiptablaðinu, þar sem henni var stillt upp sem „snilldarbragði“ vinstri „umhverfisöfgahópa“: „Því hver fær af sér að þjarma að 16 ára barni með ágengum spurningum, hvað þá 16 ára, einhverfu barni?“ Pistlinum lauk með orðunum: „Lausnir eins og að stöðva alla kolefnislosun fyrir 2025, eru aðeins öruggar um að valda stórfenglegasta efnahagshruni mannkynssögunnar.“
Gróðavænlegt að láta jörðina fara til helvítis
Síðustu þrjá áratugi hefur meira en helmingur gróðurhúsalofttegunda vegna iðnaðar verið af völdum 25 stærstu kola-, olíu- og gasfyrirtækja heims. Fimm af þessum fyrirtækjum hafa varið 74 milljörðum í áróður gegn Parísarsáttmálanum, frá því að hann var samþykktur árið 2015. Framkvæmdastjóri eins þessara fyrirtækja varð utanríkisráðherra Bandaríkjanna árið 2017, en á eftir Kína eru Bandaríkin efst á lista yfir þær þjóðir sem dæla mestum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið.
„Það er gróðavænlegt að láta jörðina fara til helvítis,“ sagði norskur fræðimaður.
„Ríkisstjórnir munu ekki framkalla slíkan skell“
Samtals eru þau 200 fyrirtæki sem brenna mestu kolefni metin á 4 trilljónir bandaríkjadala. Virði þeirra myndi að mestu glatast ef þau létu af losun gróðurhúsalofttegunda, en eftirspurnin eykst með hverju árinu og bankastofnanir halda áfram að lána fé til þeirra sem ganga harðast fram í aukinni framleiðslu og brennslu jarðefnaeldsneytis. Loftlagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að það þurfi að draga úr losun um 20 prósent fyrir 2025, en hætt er við djúpri efnahagskreppu verði því fylgt eftir. „Ríkisstjórnir munu ekki framkalla slíkan skell,“ sagði fyrrverandi orkumálaráðgjafi Bandaríkjaforseta. „Þær munu ekki viljandi keyra olíufyrirtækin í þrot.“
Við veljum okkar framtíð
Vandinn er sá að óbreytt ástand er ekki valkostur. Við stöndum frammi fyrir vali á því hvers lags framtíð við viljum. Valið er enn í okkar höndum, en við förum að missa það. Um leið og við höfum glatað möguleikanum á að skapa vistvæna framtíð þá höfum við um leið tapað efnahagslegum stöðugleika. Á endanum munu aðgerðir stjórnvalda hafa úrslitaáhrif. Þrátt fyrir það er ríkisstjórn, sem þarf að sækja atkvæði, en ætlar að setja markaðinum skorður og leggja þyngri byrðar á kjósendur, í vanda. Það er ábyrgð sem við þurfum að axla, hvert og eitt okkar.
Kannski er nánast óhugsandi að undirgangast slíkar breytingar, á meðan enn er hægt að halda í vonina. Af því að það er auðvitað aldrei hægt að vita fyrir víst hvað framtíðin ber í skauti sér. Viljum við taka áhættuna?
„Það er þó ljóst að öllu óbreyttu að börnin og barnabörnin okkar munu þurfa að búa í ólíkum og mun ótryggari heimi en við búum í dag,“ segir prófessor við Háskóla Íslands.
Sjálfsmorðssáttmáli Afríku
Nú þegar eru afleiðingarnar skelfilegar. Árið 2012 var talið að á einu ári mætti rekja dauða 400 þúsund manna til afleiðinga hamfarahlýnunar. Árið 2030 er því spáð að talan verði komin upp í 600 þúsund látinna á ári. Til samanburðar er talið að 18 þúsund hafi látist vegna hryðjuverka árið 2013.
„Við þurfum að hætta að líta á loftslagsneyðina sem framtíðarvanda,“ sagði starfsmaður Sameinuðu þjóðanna. Tugmilljónir manna hafa neyðst til að flýja heimili sín á síðustu árum vegna náttúruhamfara, talið er að loftslagsflóttamenn verði allt að 250 milljónir á komandi árum. Afleiðingarnar bitna verst á þeim þjóðum sem valda nánast engum útblæstri gróðurhúslofttegunda.
Jafnvel þótt það hafi legið fyrir undanfarin ár að ef losun verði ekki minnkuð strax og hafist handa við kolefnisbindingu í stórum stíl sé hætta á mun alvarlegri afleiðingum, hefur kolefnislosun aldrei verið meiri og sjaldan vaxið hraðar.
„Það er þó ljóst að öllu óbreyttu að börnin og barnabörnin okkar munu þurfa að búa í ólíkum og mun ótryggari heimi en við búum í dag“
Losun Íslendinga er með þeirri mestu í heimi, en í Pakistan er hún með því minnsta í heimi. Á meðan Íslendingar losa árlega tólf tonn af koltvísýringi á hvern íbúa, losa íbúar í Pakistan eitt. Munurinn er sá að Íslendingar verða einna síst fyrir afleiðingum hamfarahlýnunar, sem verða einna verstar íbúum í Pakistan, þegar flóð og uppskerubrestir skella á 200 milljónum íbúa, afleiðingar af völdum annarra.
Árið 2009, þegar ekki tókst að taka bindandi ákvarðanir eða setja langtímamarkmið, þrátt fyrir viðurkenningu á því að hlýnun jarðar mætti ekki fara yfir tvær gráður, var talað um „sjálfsmorðssáttmála fyrir Afríku“.
Tækifæri Íslendinga í náttúruhamförum
„Í því felast þó tækifæri til að bregðast við þróuninni og bregðast sem best við henni og það eru ekki hvað síst tækifæri sem Ísland hefur,“ sagði þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þegar Sameinuðu þjóðirnar kynntu skýrslu þar sem fram kom að afleiðingar hnattrænnar hlýnunar verði gríðarlega alvarlegar fyrir alla jarðarbúa, en sérstaklega þá allra fátækustu, með uppskerubresti, erfiðara aðgengi að drykkjarvatni og aukinni tíðni flóða og óveðurs.
Forsætisráðherra Íslands kom fram í fréttum til að ræða niðurstöður skýrslunnar. Hann hafði nefnilega séð tækifæri í stöðunni fyrir íslenska þjóð. Hér væri nóg af vatni, orku og landsvæði, hægt væri að rækta matvæli til úflutnings.
Í stjórnarandstöðu hafði hann áður talað um kolefnisskatt sem „sviksemi ríkisstjórnarinnar,“ staðfestingu á „fjandsamlegu viðhorfi stjórnvalda“, sem setti stóriðju landsins í hættu. „Jafnframt er starfsemi þeirra stóriðjufyrirtækja sem þegar eru starfandi í landinu í hættu. Fyrir járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga næmi árlegt kolefnisgjald meira en tvöföldum meðalhagnaði fyrirtækisins undanfarinn áratug.“
Umhverfisráðherra sömu ríkisstjórnar taldi jafnvel heppilegast að leggja ráðuneytið niður. Í stað þess að grípa til aðgerða gegn loftlagsneyð lækkaði hann losunargjald, lækkaði kolefnisgjald og lækkaði framlag ríkisins til almenningssamgangna. Niðurstöður í loftslagsmálum myndu engu breyta varðandi olíuleit á Drekasvæðinu, enda „hefur verið pólitískur samhljómur að nýta þau tækifæri sem eru á Íslandi“.
„Ég bara get þetta ekki, þó ég heiti umhverfisráðherra“
Við tók nýr umhverfisráðherra, sem lagði fram aðgerðaráætlun gegn loftslagsneyð. Inntur eftir því hvort til stæði að breyta um stefnu í landbúnaðarmálum, í ljósi þess að kjötframleiðsla á ríkan þátt í hlýnun jarðar, svaraði hann því neitandi, við ættum frekar að nýta landið betur. „Er það til dæmis eðlilegt að við flytjum inn rabarbara? … Ég bara get þetta ekki, þó ég heiti umhverfisráðherra, get ég ekki í heimi sem vantar fæði, og við eigum, ímyndað mér að það þurfi að fara að hætta við landbúnað. Það bara snýst allt við í mér.“
Áfall að lifa í þessu umhverfi
Staðreyndin er sú að fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld aldrei sett loftslagsmálin í forgang, aðgerðaráætlunum fylgdi ekki fjármagn, uppbygging stóriðju hélt áfram og olíuleit var samþykkt. Jafnvel ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir sætir gagnrýni þar sem stefna sem hefur það að marki að draga úr 40 prósent losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 sætir gagnrýni þar sem aðgerðir þykja of óljósar og illmælanlegar. Ekki er tekið á þáttum eins og landbúnaði og fjármálakerfinu. Erfitt er að sjá hvernig hægt verður að ná þessum markmiðum.
Kannski látum við eins og þetta komi okkur ekki við, vegna þess að landið er þannig staðsett að afleiðingarnar bitna ekki á okkur, eins og öðrum. Munum þá hvernig við höfum tekið á móti flóttafólki fram til þessa og hvaða afleiðingar framferði okkar hefur. Á sama tíma og Íslendingar eru ein neyslufrekasta þjóð í heimi, ein mesta bílaþjóð í heimi, ein mesta losunarþjóð í heimi. Ef allir ætluðu að lifa eins og Íslendingar þá þyrfti sex jarðir til að standa undir neyslunni.
„Fullorðnir fatta ekki hvað er að gerast,“ sagði ein níu ára, sem mætir alla föstudaga á loftlagsmótmælin, heldur ræður og reynir að vekja fólk til vitundar um vandann. Verkfræðingur á níræðisaldri segir að sér líði eins og börnunum, þegar kemur að því að bjarga jörðinni. „Það er áfall fyrir mig að lifa í þessu umhverfi.“
Athugasemdir