Stjórn Persónuverndar fellst ekki á kröfu þingmanna Miðflokksins um að Bára Halldórsdóttir verði sektuð vegna hljóðritunar hennar á samskiptum þeirra sem fram fóru á veitingastaðnum Klaustri. Hins vegar telst upptakan ólögleg samkvæmt persónuverndarlögum og ber Báru að eyða henni.

Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar vegna Klaustursmálsins sem kveðinn var upp í dag.
Stundin hefur úrskurðinn undir höndum. Í niðurstöðu hans er litið sérstaklega til þess að rannsókn Persónuverndar leiddi ekki í ljós neinn „samverknað“, þ.e. samsæri á borð við það sem Miðflokksmenn og lögmaður þeirra höfðu sett fram kenningar um. Þá er bent á að samræðurnar sem Bára tók upp hafi orðið „tilefni mikillar umræðu í samfélaginu um háttsemi þjóðkjörinna fulltrúa“.
Með hliðsjón af tilgangi hljóðritunarinnar og kringumstæðum málsins telur Persónuvernd ekki efni til að leggja sekt á Báru. Engu að síður ber Báru að eyða upptökunni og senda Persónuvernd staðfestingu á að það hafi verið gert eigi síðar en 5. júní næstkomandi.
Athugasemdir