Viðskiptaráð Íslands telur ánægjulegt að stjórnarmeirihlutinn ætli að lækka bankaskattinn á kjörtímabilinu og kallar eftir því að skatturinn verði afnuminn að fullu. Auk þess vilja samtökin að stjórnvöld hefji undirbúning á sölu eignarhluta ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. „Bankaskattur er skaðleg og óskilvirk skattheimta sem ofan á það rýrir eignir ríkisins sem felast í eignarhluta í Íslandsbanka og Landsbankanum. Í því ljósi hvetur Viðskiptaráð til að gengið verði lengra og bankaskatturinn afnuminn enda skattheimta á fjármálafyrirtæki hér á landi mun meiri en í samanburðarlöndum.“
Það eru vonbrigði, segir Viðskiptaráð, hve lítið er vikið að fyrirætlunum um bankasölu í áætluninni. „Ríkið ætti að setja skýra stefnu og áætlun um að selja bankana með varfærni og arðsemi að leiðarljósi. Í þeim tæknibreytingum og breytingum á samkeppnisumhverfi sem standa yfir er hagfelldast að einkaaðilar reki viðskiptabanka.“
Umsögn hagsmunasamtakanna er efnismikil og hefur að geyma ýmiss konar athugasemdir við efni og framsetningu fjármálaáætlunar og framkvæmd laga um opinber fjármál. Höfundur er Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Áður hafa samtökin gagnrýnt áform um stofnun þjóðarsjóðs og er imprað á þeirri gagnrýni í umsögninni: Í stað þess að ráðstafa opinberu fé í þjóðarsjóð sem fjárfestir í verðbréfum erlendis og fjármagnar þannig fyrirtæki á erlendri grundu ætti að verja fénu til skattalækkana eða í „stuðning við nýsköpun og uppbyggingu nýrra atvinnuvega hér á landi“.
Samtökin vara við auknum umsvifum hins opinbera, víkja sérstaklega að þeirri hagfræðinálgun sem kölluð er “Modern Monetary Theory” (sjá t.d. hér og hér) og segja að yfirborðskenndur skilningur á henni gefi „tilefni til þess að ríkið geti án nokkurra neikvæðra afleiðinga haft hallarekstur“.
„Rétt er að vara við þessum skilningi því líkt og í heimilisbókhaldinu og lífinu almennt er ekkert ókeypis í ríkisfjármálum þó að virkni þeirra kunni að vera mismunandi. Með öðrum orðum getur t.d. hallarekstur veikt gengið, kynt undir verðbólgu og verið ósjálfbær.“
Hér má lesa umsögnina í heild.
Athugasemdir