Minnihlutinn í bæjarstjórn Seltjarnarnes segir fjárhagsstöðu bæjarins grafalvarlega og vinnubrögð stjórnenda bæjarins óboðleg. Vilja bæjarfulltrúar minnihlutans að þverpólitískur starfshópur með utanaðkomandi ráðgjöf rýni fjármál bæjarins.
Halli var á rekstri bæjarins upp á 264 milljónir króna í fyrra, eða um 324 milljónum frá áætlun. „Ennfremur er ljóst að þegar tvö þriggja ára tímabil eru skoðuð - það er 2016-2018 og 2017-2019 - er rekstrarjöfnuður neikvæður,“ segir í bókun minnihluta Samfylkingar og Neslista/Viðreisnar á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag. „Það er þvert á viðmið sveitarstjórnarlaga sem kveða á um að bæjarstjórn eigi að sjá til þess að rekstrarjöfnuður A og B hluta séu á hverju þriggja ára tímabili jákvæður.
Þessi staða er grafalvarleg og mun ef ekkert verður að gert hafa alvarleg áhrif á getu sveitarfélagsins til að veita íbúum sínum góða þjónustu.“
Minnihlutinn segir stjórnendur bæjarins hafa tekið lán upp á 1,1 milljarð króna án þess að sækja heimild til bæjarstjórnar. Meirihluti Sjálfstæðisflokks hafi farið verulega fram úr áætlunum á ýmsum sviðum og hallareksturinn sé ólíðandi þegar búist sé við niðursveiflu í efnahagslífinu.
„Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar/Neslista leggja til að stofnaður verði þverpólitískur starfshópur til að rýna fjármál bæjarins á komandi misserum, utanaðkomandi ráðgjöf verði fengin til þess að koma fjárhag bæjarins aftur á lygnan sjó,“ segir loks í bókuninni.
Athugasemdir