Þungunarrof, áður kallað fóstureyðing, hefur verið nokkuð umrætt að undanförnu og ekki aðeins á Íslandi. Hér er verið að rýmka rétt kvenna til þungunarrofs en vestur í Bandaríkjunum virðist öflug hreyfing risin sem fer í gagnstæða átt. Ríkisstjóri Georgíu skrifaði á dögunum undir ný lög sem gera þungunarrof ólöglegt eftir að hjartsláttur fósturs verður greinanlegur.
Þá er ekki miðað við að konan sjálf greini hjartslátt fóstursins, heldur að læknar geti fundið hann með tækjum sínum og tólum. Yfirleitt gerist það kringum 16. viku meðgöngu en þá hafa ýmsar konur varla eða ekki gert sér grein fyrir að þær séu barnshafandi.
Undantekningar eru frá lögunum í Georgíu. Þungunarrof er heimilt upp að 20. viku ef líf konunnar er í hættu vegna þungunar og sömuleiðis ef þungunin stafar af nauðgun.
Þungunarrof á egifskum papýrus
Svipuð lög hafa að undanförnu verið samþykkt í fleiri ríkjum Bandaríkjanna eða eru í undirbúningi, en hafa þó hvergi komist í framkvæmd enn, þar sem baráttuhópar fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna hafa leitað til dómstóla um að hrinda lögunum.
Og ekki útséð um hvernig það ferli endar.
En hverjar eru fyrstu heimildir um þungunarrof í sögunni? Þær eru býsna gamlar. Elsta heimildin virðist vera á papýrus frá Egiftalandi sem talin er hafa verið skrifaður fyrir rúmlega 3.500 árum. Þar virðist vera mælt með að smyrja kynfæri konu og inn í þau með hunangi og öðrum efnum til að framkalla fósturlát. Á þetta virðist litið sem eðlilegan hlut sem enginn sérstakur dómur er lagður á.
„Handan allra sorga“
Í ævafornum hindúískum trúartextum, svo sem Vedabókunum sem eiga rót sína að rekja allt að 3.000 ár aftur í tímann, er á nokkrum stöðum vikið að þungunarrofi og höfundar þeirra rita virðast yfirleitt leggjast býsna eindregið gegn því. Á einum stað í Upanishad-textunum segir frá andlegu ástandi sem bersýnilega er mjög óeðlilegt og óæskilegt:
„Þá er faðir ekki faðir, móðir ekki móðir, heimurinn er ekki heimur, guðir eru ekki guðir og Vedabækurnar eru ekki Vedabækur. Hér er þjófur ekki þjófur, þungunarrof ekki þungunarrof, hinn útskúfaði er ekki útskúfaður, úrhrak er ekki úrhrak, einsetumaður ekki einsetumaður og meinlætamaður ekki meinlætamaður.“
Þeir sem valda þungunarrofi virðast sem sé nokkuð ofarlega í huga þeim Upanishad-höfundi, sem lýsir þessu óttalega ástandi þar sem maðurinn er kominn „handan allra sorga í hjarta“ og „hvorki gott né illt fylgja honum“.
Þungunarrof jafngilt eiginmannsmorði og áfengisdrykkju
Á hinn bóginn virðast refsingar í raun ekki strangar fyrir þungunarrof. Í Vedabókinni Manavadharmaśāstra kemur fram að konur sem stunda þungunarrof séu meðal úrhraka samfélagsins, þá skal konu, sem hefur látið framkvæma þungunarrof, ekki refsað nema því að neita henni um að taka þátt í dreypifórnum. Meðal trúaðra hindúa var það að vísu eflaust alvarlegt mál en þó ekki líkamleg refsing.
Í upptalningu Manavadharmaśāstra á þeim konum sem fá ekki að njóta dreypifórnanna eru „þær sem forakta helgisiði og segja má að séu fæddar til einskis, þær sem fæddar eru af ólöglegum samdrætti fólks af ólíkum stéttum, þær sem framið hafa sjálfsmorð, þær sem stunda meinlæti í villutrúarsöfnuðum, þær sem lifa í losta með mörgum karlmönnum, þær sem hafa framkallað þungunarrof, þær sem hafa drepið eiginmenn sína eða drukkið áfenga drykki“.
Tapast gæti mikilsmetinn brahmíni
Á öðrum stað í Vedabókunum virðist svo gefið til kynna að einna alvarlegast við þungunarrof sé að með því kunni veröldin að vera svipt vitrum karlmanni sem hefði, ef hann hefði fengið að koma í heiminn, orðið mikilsmetinn brahmíni, lært Vedabækurnar utanbókar og þulið þær fyrir annað fólk, stýrt fórnum til guðanna og unnið veröldinni margvíslegt annað gagn.
Víðar í fornum ritum kemur raunar fram að áhyggjur manna af þungunarrofi virðast ekki síst snúast um kyn fóstursins og ljóst að alvarlegra var talið að eyða karlkyns fóstri en kvenkyns. Þá var talið alvarlegt ef þungunarrof hafði áhrif á erfðamál sem snerust að heita má eingöngu um erfðarétt karlmanna.
Glæpur ef karlinn vissi ekki neitt
Í einni fornri heimild er kveðið á um dauðarefsingu fyrir konu sem framkvæmir þungunarrof. Það er í lagabálki Assyríumanna sem skráður var fyrir 3.000 árum en Assyríumenn höfðu einhver ströngustu og grimmustu lög sem enn hafa þekkst í veröldinni. Dauðarefsing liggur við ótal glæpum en vægari refsingar felast yfirleitt í að nef, eyru eða útlimir eru skornir af. Hvað snertir þungunarrofið, þá lá þó aðeins dauðarefsing við slíku ef það var framkvæmt án þess að hinn verðandi faðir vissi eða hafði gefið leyfi sitt.
Í hinum gríska og síðar rómverska heimi virðist hafa verið litið á þungunarrof meira og minna sem eðlilegan hlut, þótt vissulega megi finna dæmi um að því sé andmælt og það sé jafnvel ólöglegt að einhverju leyti, stundum, sums staðar. Í einni af Samræðum þeim sem heimspekingurinn Platon skráði er minnst á þungunarrof og ljóst er að ekkert er talið óeðlilegt eða glæpsamlegt við það.
Ljósmæður stunda þungunarrof
Þar lætur Platon læriföður sinn, Sókrates, skiptast á skoðunum við stærðfræðinginn Þeaetetus, og þar kemur að samræðum þeirra að Sókrates spyr:
„Er þá ekki líklegt og jafnvel nauðsynlegt að ljósmæður viti betur en aðrir hvaða konur eru barnshafandi og hverjar ekki?“
„Vissulega,“ svarar Þeaetetus.
„Og þar að auki,“ heldur Sókrates áfram, „þá kunna ljósmæðurnar bæði með lyfjum og töfraþulum að hleypa af stað fæðingarhríðum, og einnig, ef þær vilja, að draga úr þeim, og þær kunna að gera fæðinguna bærilega fyrir þær konur sem eiga erfitt með að fæða, og þær geta líka framkvæmt fósturlát ef þær telja það æskilegt.“
„Rétt er það,“ svaraði Þeaetetus.
Hvorugur þeirra Sókratesar telur sem sagt nokkuð rangt við þungunarrof.
Áhyggjur af mannfækkun
Rómverjar virðast hafa verið heldur andsnúnari þungunarrofi en Grikkir en af ýmsum ástæðum. Skáldið Óvidíus harmar til dæmis þungunarrof fyrst og fremst af því að með því kunni heimurinn að vera sviptur mikilmennum og hann nefnir þá sérstaklega til sögunnar nokkur mikilmenni sem skaði hefði verið að missa: Grísku hetjuna Akkilles, bræðurna Rómúlus og Remus, sem stofnuðu Rómaborg, Ágústus (verndara og vini Óvidíusar) og svo sýnir skáldmæringurinn þá hógværð að nefna einnig sjálfan sig!
Þetta viðhorf Rómverja kemur víðar fram. Í ræðum skörungsins Cicerós fordæmir hann til dæmis konu sem hafði látið eyða fóstri en ástæðan var fyrst og fremst sú að með því var karlmaðurinn, sem gat fóstrið, sviptur erfingja og hætta var á að ætt hans dæi út, en slíkt var óbærilegt í augum Rómverja. Mjög oft er amast við þungunarrofi af því að ekki sé einungis tiltekinni ætt heldur öllu ríkinu stefnt í hættu. Rómverjar höfðu sem sé þungar áhyggjur af mannfækkun.
Dimmleitur bastarður
Í því sambandi má nefna skáldið Juvenalis sem uppi var fyrir um 1.900 árum. Hann átaldi stranglega ríkar konur sem neituðu að eiga börn, en viðurkenndi raunar um leið að siðferði þeirra væri svo bágborið um þær mundir að þungunarrof væri líklega heppilegra heldur en að samfélagið sæti uppi með dimmleitan bastarð eþíópísks þræls.
Allra æskilegast væri þó líklega að konurnar fengju sér gelding að elskhuga.
En Juvenalis og fleiri Rómverjar töldu ljóslega að fátt væri við þungunarrof að athuga í sjálfu sér, þeir virðast til dæmis ekki hafa litið svo á að fóstur hefði sál af einhverju tagi fyrr en það kæmi í heiminn. Dæmi eru um þungunarrof allt fram á áttunda mánuð. Rómverjar hörmuðu fyrst og fremst að konur væru að hlaupa frá þeirri samfélagslegu skyldu sinni að sjá ríkinu fyrir nýjum þegnum (ekki síst hermönnum og herforingjum) með því að undirgangast þungunarrof.
Eins og segir í kvæði sem kennt er Óvidíus:
„Raraque in hoc aevo est quae velit esse parens.“
Krókódílaskítur
En hvað sem leið viðhorfum skálda, þá er ljóst að þungunarrof var mikið stundað í Rómaveldi og raunar um heim allan og sjaldnast var litið á það sem einhvers konar glæp. Aðferðir voru ýmsar og þeim er lýst í fjölmörgum fornum ritum. Ýmiss konar smyrsl voru algeng, eða jurtaseyði, og slíkar aðferðir hafa ljósmæðurnar sem Sókrates nefndi eflaust notað. Efni af ýmsu furðulegu tagi voru líka möluð og troðið upp í leggöng kvenna og dugar að nefna bæði krókódílaskít og niðursaxaðar mýs, sem rómverski höfundurinn Pliníus eldri nefnir – þótt líklega hugsi hann mýsnar fremur sem getnaðarvörn en beinlínis þungunarrof.
Þröng belti og barsmíðar
Þá var algengt ráð að konur reyrðu sig þröngum beltum til þess að fóstrið fengi ekki rúm til að vaxa eðlilega og þess virðast líka hafa verið dæmi að barsmíðar hafi einfaldlega verið notaðar til að eyða lífi fósturs.
Raunveruleg og ströng andstaða við þungunarrof kom svo í rauninni ekki til sögunnar til forna fyrr en með kristindómnum, því kirkjufeðurnir frægu lögðust flestir eindregið gegn því. Jeróm kirkjufaðir, sem uppi var á ofanverðri fjórðu öld, hrakyrti til dæmis minningu kvenna sem hefðu dáið eftir misheppnað þungunarrof. Þær væru sekar um þrefalda dauðasynd: sjálfsmorð, hórdóm framhjá sínum himneska brúðguma Kristi og morð á ófæddu barni sínu.
Kirkjufeðurnir koma til skjala
Segja má að þessir kristnu kirkjufeður hafi fyrstir farið að líta á fóstur sem lífveru með sál sem ekki mætti eyða. Þeir voru þó misstrangir og þungunarrof voru áfram framkvæmd öldum saman án þess að mikið veður væri út af gert. Það var í raun vart fyrr en á 19. öld sem kviknaði af fullum þunga hugmyndin um þungunarrof sem glæp sem ríkinu bæri að refsa fyrir. Og kannski var sú hugmynd ekki síður andsvar við vaxandi vitund kvenna um sjálfsákvörðunarrétt yfir líkama sínum en byggð á virðingu fyrir lífi fósturs.
Athugasemdir