Þingmenn stjórnarflokkanna fengu senda „samantekt“ frá aðstoðarmanni Sigríðar Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, þann 11. mars síðastliðinn, daginn fyrir uppkvaðningu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu, þar sem lagðar eru línurnar um hvernig bregðast megi við dóminum í opinberri umræðu.
Stundin hefur skjalið undir höndum, en svo virðist sem það sé samið til að búa stjórnarliða undir að íslenska ríkið tapi málinu. Samantektin er í sjö liðum, en um er að ræða eins konar talpunkta eða áróðursfrasa sem miðlað er til þingmanna, setningar á borð við „Ísland er fullvalda ríki og hefur ekki framselt dómsvald sitt til Evrópu“. Er þetta í takt við þá orðræðu sem forystufólk í Sjálfstæðisflokknum átti síðan eftir að viðhafa dagana eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll.
Fullyrt er í samantektinni frá dómsmálaráðuneytinu að allar þrjár greinar íslenskrar stjórnskipunar, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, auk forseta Íslands, hafi komist að sömu niðurstöðu og telji skipan dómara við Landsrétt lögmæta. „Ekkert íslenskt mál sem farið hefur til MDE hefur haft viðlíka stuðning og staðfestu frá íslensku réttarríki,“ segir í skjalinu.
Rakið er sérstaklega hvernig Hæstiréttur hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að annmarkar á málsmeðferðinni við skipun dómara við Landsrétt hafi ekki vægi við mat á því hvort skipunin sjálf sé lögmæt. Loks er lögð áhersla á fullveldi Íslands og að úrlausnir MDE séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti enda hafi dómsvald ekki verið „framselt“ til Evrópu.
Nokkrum dögum eftir að MDE dæmdi íslenska ríkið brotlegt í Landsréttarmálinu boðaði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra til blaðamannafundar og tilkynnti um afsögn sína. Um leið sagðist hún ekki myndu „láta það átölulaust að íslenskir dómstólar framselji vald til túlkunar á íslenskum lögum til erlendra dómstóla“.
Bjarni Benediktsson tók í sama streng. „Mér finnst líka mjög mikilvægt að við veltum upp annarri spurningu sem er þessi: Höfum við framselt túlkunarvald yfir íslenskum lögum til Evrópu? Ég hélt ekki, ég hélt ekki,“ sagði hann á fréttamannafundi í þinghúsinu eftir að greint var frá afsögn Sigríðar.
Athugasemdir