Sigríður Á. Andersen hefur ekki tekið þátt í neinni atkvæðagreiðslu á Alþingi frá því hún sagði af sér embætti dómsmálaráðherra þann 13. mars síðastliðinn. Þá liggur ekki fyrir opinberlega í hvaða fastanefnd Alþingis hún mun setjast sem óbreyttur þingmaður.
Samkvæmt þingskapalögum er þingmönnum skylt að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni og skal tilkynna forseta um forföll.
Tæpir tveir mánuðir eru liðnir síðan Sigríður Andersen boðaði til blaðamannafundar og tilkynnti að hún hygðist segja af sér ráðherradómi. Með því vildi hún skapa vinnufrið vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.
Síðan hefur hún verið fjarverandi – ekki með skráða fjarvist – í öllum atkvæðagreiðslum sem farið hafa fram á Alþingi. Síðasta atkvæðagreiðsla sem hún tók þátt í á Alþingi fór fram 6. mars og síðasta þingræða hennar var flutt daginn áður.
Stundin sendi Sigríði Andersen tölvupóst og bauð henni að tjá sig um málið eða bregðast við fréttinni. Ekki hafa borist svör.
Athugasemdir