Reimar Pétursson, lögmaður Miðflokksmanna telur „óræka sönnun“ liggja fyrir um að Bára Halldórsdóttir hafi verið búin að undirbúa sig kyrfilega sínar þegar hún hljóðritaði samskipti þingmanna Miðflokksins á Klaustri bar. Bára hljóti að hafa aflað sér sérstaks upptökubúnaðar, lært á hann og æft aðgerðir sínar. Raunar hafi aðgerðin verið svo þaulskipulögð, umfangið slíkt, að hún sé vart á færi einnar manneskju.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ákvörðun Persónuverndar þar sem kröfu Miðflokksmanna um frekari gagnaöflun vegna Klaustursmálsins er hafnað. Persónuvernd telur kröfur þingmannanna um að fá afhentar upplýsingar um símtöl, smáskilaboð og greiðslur einstaklings ekki samræmast þeim lagaheimildum sem stofnunin hefur.
Miðflokksmenn telja að mynd sem tekin var fyrir utan Klaustur bar og barst Stundinni eftir að blaðið hóf umfjöllun um Klaustursmálið hafi verið tekin af Báru sjálfri.
Þá er haft eftir lögmanni þeirra að eftir atburðina á Klaustri hafi „ómældur tími hafi farið í skipulagningu og aðgerðir til úrvinnslu efnis“, gengið hafi verið til aðgerða „með skipulögðum og einbeittum hætti og að sú frásögn sé fjarstæðukennd að þær hafi verið ákveðnar í einhvers konar fljótfærni“.
„Ómældur tími hafi farið í skipulagningu
og aðgerðir til úrvinnslu efnis“
Bára er sökuð um ósannindi og frásögn hennar sögð samhengislaus auk þess sem fullyrt er að aðgerðir hennar hafi verið með þeim hætti að „fleiri en einn hafi þurft til þar sem fylgjast hafi þurft með ferðum manna, afla sér búnaðar, læra á hann og útfæra og æfa aðgerðir. Slíkt sé tæpast á færi einnar manneskju“.
Athugasemdir