Ég ætlaði mér ekkert endilega að skrifa pistil um Klaustursmálið og alla ranghala þess. Hins vegar hafa þingmenn Miðflokksins, mennirnir sem ég hélt að vildu gleyma málinu sem fyrst, verið duglegir við að vekja athygli á því. Nú síðast hélt Bergþór Ólason ræðu á Evrópuþinginu þar sem hann sagði frá öllu því óréttlæti sem hann og aðrir Miðflokksmenn hafi orðið fyrir í kjölfar Klaustursmálsins. Vissulega hafa þeir beðist afsökunar á orðum sínum, en þeim afsökunarbeiðnum hefur fylgt lítil sem engin iðrun.
Miðflokksmennirnir hafa verið duglegir við að halda því fram að málið sé byggt á lygi og tala um skipulagða aðgerð, hleranir og njósnir. Að Bára Halldórsdóttir hafi verið búin að ákveða fyrirfram að taka upp samtal þingmannanna og því mætt í dulargervi erlends ferðamanns á Klaustur. Sem er brjálæðisleg kenning! Vissi Bára að þingmenn Miðflokksins myndu hittast á Klaustri bar áður en hún kom á staðinn? Sá hún fyrir að Miðflokksmennirnir myndu eyða venjulegu þriðjudagskvöldi í að tala illa um allt og alla í kringum sig? Samstarfskonur sínar á þingi, fatlað fólk og samkynhneigða?
Það er fjarstæðukennt. Ef Klaustursmálið er eitt stór samsæri þá hefði atburðarásin getað litið einhvern veginn svona út:
Fyrr um daginn fékk Bára dularfullan tölvupóst sem sent var af netfanginu spyingonfamouspeople@soros.com. Í tölvupóstinum kom fram að einmitt þetta þriðjudagskvöld ætluðu nokkrir þingmenn úr Miðflokknum og Flokki fólksins að hittast á Klaustri bar, gengt þinghúsinu, og fá sér bjór. Í viðhengi með póstinum var svo listi yfir þá einstaklinga sem þingmennirnir ætluðu að úthúða, en tekið fram að listinn væri ekki tæmandi. Þar var einnig listi yfir þá minnihluta sem þeir ætluðu sér að tala illa um.
Neðst í viðhenginu voru nákvæm fyrirmæli til Báru um hvernig hún ætti að standa að upptökunum. Hún átti að mæta snemma, bíða aðeins í bílnum áður en hún færi inn á Klaustur. Ganga svo rösklega inn, fá sér sæti eins nálægt þingmönnunum og hún gæti án þess þó að vekja á sér athygli. Svo átti Bára að taka upp hlerunarbúnaðinn, gamlan Samsung-síma, leggja hann á borðið og hefja upptöku sem átti að standa yfir í rúmar fjórar klukkustundir. Til að vekja engar grunsemdir hjá þingmönnunum og öðrum gestum barsins átti Bára að vera dugleg við að leggja gögn yfir símann og færa hann reglulega til.
Í póstinum var líka annað viðhengi en í því var samtal þingmannanna að finna í grófum dráttum. Enda er Soros með á sínum snærum fólk sem á í engum vandræðum með að sjá inn í framtíðina og getur heyrt samtöl sem eiga eftir að fara fram. Það er hæfileiki sem getur unnið hvaða hæfileikakeppni sem er!
Nei, Bára hafði ekki hugmynd um hverjir væru á Klaustur bar áður en hún gekk þar inn á þriðjudagskvöldi seint í nóvember. Eða hvað fólk væri yfir höfuð að ræða þar inni. Ekki frekar en ég veit hvaða málsháttur kemur upp úr páskaegginu á páskadagsmorgun.
Samsæriskenningatalinu er ætlað að afvegaleiða umræðuna og draga athyglina frá því hvernig þingmennirnir töluðu og höguðu sér á Klaustri. Þeir vilja ekki bera ábyrgð á því sem þeir sögðu og gera allt til að láta líta út fyrir að þeir séu fórnarlömbin samsæris. Þess vegna reyna þingmenn Miðflokksins að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sýna fram á að reynt var að knésetja Miðflokkinn á meðan þeir sátu í sakleysi sínu yfir bjórglasi á Klaustri.
Athugasemdir