Fyrir hálfum mánuði fjallaði ég hér um aðdraganda þess að Adolf Hitler náði völdum í Þýskalandi í janúar 1933. Hér verður höggvið í sama knérunn og nánar farið í saumana.
Kreppan mikla, sem hófst í Bandaríkjunum 1929, fór fljótlega að bíta illilega í Þýskalandi, atvinnuleysi varð faraldur, síðar bætti bankakrísa síst úr skák. Sérstaka gremju vöktu þá hinar þungbæru stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar höfðu verið nauðbeygðir að fallast á eftir fyrri heimsstyrjöldina. Skaðabótum þessum var ekki síst ætlað að endurreisa þau svæði í Belgíu og Norður-Frakklandi sem voru í rúst eftir hernað Þjóðverja þar 1914–18. Bandamenn höfðu sýnt ýmsa viðleitni til að slaka á greiðslubyrðinni en tóku ekki í mál að fella skaðabæturnar niður.
Ljóst var að ef Þjóðverjar hættu greiðslum einhliða væru þeir í raun að segja sig meira og minna úr lögum við þá alþjóðasamvinnu og alþjóðaefnahagskerfi sem byggð höfðu verið upp að undanförnu.
Athugasemdir