Þegar mannkynið sá fyrstu myndina af svartholi var mest lesna frétt dagsins að einhver réðst á hlaupara í Elliðaárdal.
Vörubílsfarmar fylltir af syngjandi menntaskólakrökkum keyrðu um miðborg Reykjavíkur þegar svartholið sást fyrst. Þeir fögnuðu útskrift og upphafi framtíðar sinnar.
Um morguninn var sagt frá því að Ísraelar kusu aftur Benjamín Netanyahu til valda. Þeir gerðu það þrátt fyrir þrálátar ásakanir um spillingu og vegna þess að hann lofaði að innlima meira af palestínsku landi í Ísrael.
Hópurinn sem náði að mynda svarthol í fyrsta sinn var að miklu leyti styrktur af Evrópusambandinu. Á Íslandi var áfram rætt um að Evrópusambandið ætlaði að stela orkunni okkar.
Myndin af svartholinu náðist með samstillingu átta sjónauka víða á jörðinni. Nokkrum vikum áður en hún var birt var kvartað undan því í ræðu á Alþingi að útlenskir hælisleitendur fengju að fara á salernið í kirkju.
Klukkutíma eftir að mynd af svartholi var fyrst birt á íslenskum fréttamiðli höfðu fimmtíu Íslendingar lækað hana. Tvöfalt fleiri lækuðu „Magnús og Hrefna keyptu bústað af Björk og tóku hann í nefið“.
Þegar svartholið var sýnt mannkyninu í fyrsta sinn var sagt frá því í fréttum að jöklar bráðna fimm sinnum hraðar en talið var áður.
Myndin af svartholinu var birt meira en hundrað árum eftir að einhver reiknaði sig niður á þá niðurstöðu að þau hlytu að vera til. Og myndin var eins og ímyndin.
Og hér er það sem sást: Það snýst. Réttsælis. Eða í það minnsta yfirborðið. Það sem við sáum er nefnilega ekki svartholið, heldur jaðar þess, „event horizon“, sjónhvörf, ystu mörk þess svæðis sem svarthol gerir ósýnilegt. Ekkert sem fer að jaðrinum kemst til baka.
Við getum ekki vitað hvað gerist handan, undir yfirborðinu, þar sem „hugtökin tími og rúm missa í raun merkingu sína“.
Í svartholinu verður allt samt, samfallið af ólýsanlegum og óendanlegum þunga í „singularity“. Allt er týnt að eilífu, „farið út úr heiminum sem við lifum í“.
Athugasemdir