Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að atvikið sem átti sér stað eftir opinn fund fastanefndar á Alþingi í dag sé „óvenjulegt og með öllu ósæmilegt“.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ýtti Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar eiganda Samherja, við Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og hreytti í hann fúkyrðum að loknum opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um vinnubrögð Seðlabankans við rannsókn Samherjamálsins.
Helgi segir að í nefndahúsi sé alltaf öryggisgæsla og aukin gæsla þegar opnir nefndafundir eru haldnir. „Þannig var það í dag, enda gestir í gestasætum. Atvikið sem þú gerir að umtalsefni átti sér stað eftir að fundi lauk. Þingvörður var nærri en eins og myndband sýnir hafði hann ekki tök á því að hafa afskipti af framferði eins gestsins gagnvart embættismanni sem kom fyrir nefndina,“ segir Helgi í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
„Eins og myndband sýnir hafði hann ekki
tök á því að hafa afskipti af framferði
eins gestsins gagnvart embættismanni
sem kom fyrir nefndina“
„Það hefur fram að þessu ekki þótt ástæða til að veita þeim sem koma á fund nefnda sérstaka vernd, en þó eru til nokkur dæmi þar sem lögregla var kvödd til fyrir fund og verið í húsi meðan á honum stóð. Engin ástæða þótti til slíks viðbúnaðar í dag.“
Helgi segir atvikið á nefndasviði í dag einstakt og með öllu ósæmilegt. Að mati skrifstofunnar kalli það þó ekki á neinar varanlegar breytingar að því er varðar öryggisgæslu.
„Ég á ekki von á að gæslan verði hert að mun út af þessu atviki. Við metum alltaf stöðuna fyrirfram, fylgjumst með, og högum gæslu samkvæmt því.“
Athugasemdir