Tabú, femínísk fötlunarhreyfing, óskaði eftir því að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, viki af fundi þegar fulltrúar hreyfingarinnar kæmu fyrir nefndina til að ræða breytingar á almennum hegningarlögum sem snúast um þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu. Þegar ljóst var að ekki yrði orðið við því ákvað Tabú að afþakka fundarboðið.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef hreyfingarinnar. Alþingi hefur nú til umfjöllunar stjórnarfrumvarp sem snýst um að rýmka frelsi fólks til að rógbera, smána og ógna hópum á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar og kynvitundar. Verði frumvarpið að lögum mun ekki lengur vera refsivert að níða og niðurlægja minnihlutahópa á Íslandi nema slík tjáning sé „til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“.
Tabú er á meðal þeirra fjölda umsagnaraðila sem leggjast gegn frumvarpinu. Var hreyfingunni boðið á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis til að lýsa afstöðu sinni.
„Í ljósi þeirrar staðreyndar að einn nefndarmanna er Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og einn gerenda í Klaustursmálinu, fór Tabú fram á að hún viki af fundinum þegar fulltrúar okkar kæmu fyrir nefndina,“ segir í yfirlýsingu hreyfingarinnar. „Var það gert vegna þess að Anna Kolbrún varð uppvís að hatursorðræðu gegn fötluðu fólki og öðrum jaðarsettum hópum, sagði ekki af sér í kjölfarið og tók þátt í að kalla Báru Halldórsdóttur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.“
Fram kemur að Páll Magnússon, formaður þingnefndarinnar, hafi brugðist við erindinu með eftirfarandi hætti í tölvupósti:
Sæl Embla
Fastanefndir Alþingis eru þingkjörnar og hvorki nefndirnar sjálfar né formenn þeirra hafa með það að gera hverjir þar sitja. Ósk um að þið komið á fund nefndarinnar stendur óbreytt.
Bestu kveðjur,
Páll Magnússon
Tabú segist ekki geta unað við þetta. „Hér kemur í ljós hversu alvarlegt það er að Alþingi hafi ekki axlað ábyrgð með afdráttarlausum hætti í Klaustursmálinu og að Klaustursþingmenn hafi ekki sagt af sér þingmennsku. Ekki er hægt ætlast til þess að þolendur þessa ofbeldis mæti gerendum við þessar aðstæður.“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd, tjáir sig um málið á Facebook. „Enn flækir Klaustursmálið þingstörf. Áður hefur Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum tilkynnt að það muni sniðganga fundi í nefndum með Klaustursfólki, en nú bætist Tabú í hópinn. Þetta setur þingnefndum miklar skorður í umfjöllun um mikilvægan málaflokk.“
Athugasemdir