Viðræðum WOW air og Icelandair lauk í gær án þess að samningar næðust. Mikil óvissa ríkir um framtíð WOW air.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vinnur Arctica Finance að því að safna andvirði 42 milljóna dollara, 5 milljörðum króna, til að tryggja rekstur félagsins. Félagið skuldar íslenskum aðilum stórar upphæðir, þar á meðal Arion banka og Isavia, en forsvarsfólk WOW air hefur þrýst á að Isavia gefi eftir hluta skuldarinnar. Þátttakendur í skuldabréfaútboði WOW frá því í haust, sem lögðu þá til andvirði tæpra 8 milljarða íslenskra króna, og aðrir kröfuhafar funduðu um helgina.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var tap WOW air á síðasta ári 22 milljarðar króna. Þá muni lausafjárstaða félagsins vera afar veik, neikvæð um 1,4 milljarð króna, og eigið fé félagsins neikvætt um sem nemur 11 milljörðum króna. Tryggja þurfi 10 milljarða króna innspýtingu til að reksturinn lifi út árið.
Þá hefur komið fram að mögulegt fall WOW air gæti valdið miklum skakkaföllum fyrir íslenskt efnahagslíf. Landsframleiðsla gæti dregist saman um allt að 3 prósent, samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu Reykjavík Economics. Slíkt hefði einnig í för með sér veikingu krónunnar og þúsundir starfa mundu tapast.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu um málið í gær. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttir, ferða- og samgöngumálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ræddu saman, ásamt Michael Ridley frá JP Morgan fjárfestingabankanum.
Athugasemdir