Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Við þráum frið og öryggi

Shahnaz Safari og börn­in henn­ar tvö, Zainab og Amil, verða að óbreyttu send aft­ur til Grikk­lands, þar sem þeirra bíð­ur líf á göt­unni. Verði nýtt frum­varp dóms­mála­ráð­herra að lög­um verð­ur von fólks eins og þeirra, um líf og fram­tíð á Ís­landi, enn daufari en áð­ur.

Við þráum frið og öryggi

Tvisvar hafa íslensk stjórnvöld hafnað því að taka mál Shahnaz Safari og barna hennar til efnislegrar meðferðar, sem er grunnforsenda þess að þau eigi möguleika á að setjast að á Íslandi. Fyrst hafnaði Útlendingastofnun því þann 6. desember síðastliðinn og þá höfnun staðfesti kærunefnd útlendingamála 12. febrúar. Eftir því sem Stundin kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem Kærunefndin staðfestir úrskurð Útlendingastofnunar í máli sem þessu, þar sem um einstæða móður með börn með alþjóðlega vernd í Grikklandi er að ræða. Í september síðastliðnum felldi Kærunefndin til að mynda úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja um að taka umsókn fjölskyldu til efnismeðferðar, sem hafði alþjóðlega vernd í Grikklandi.

Enginn vafi leikur á um að staða Shahnaz, Zainab og Amir er afar veik og viðkvæm. Þau eiga engar efnislegar eignir, litla sem enga peninga og afar erfiða reynslu að baki. Faðir barnanna er týndur í Grikklandi og óljóst hvort hann er á lífi og móðirin glímir við alvarlegt þunglyndi. Þrátt fyrir það er áætlað að senda fjölskylduna aftur til Grikklands, þar sem þau eru fullviss um að lenda á götunni.

Þessa ákvörðun taka stjórnvöld í skjóli þess að fjölskyldan hefur þegar fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi, en þangað fór hún í hælisleit í byrjun árs 2016. Að undanförnu hefur þeim hins vegar fjölgað sem hingað koma sem eru einmitt í þeirri stöðu. Fólkið lýsir því sem alþjóðastofnanir og hjálparsamtök hafa staðfest: Ömurlegum aðstæðum í flóttamannabúðum, bágri heilbrigðisþjónustu, kynþáttafordómum og skorti á tækifærum. Alþjóðleg vernd í Grikklandi sé verri en engin vernd.

Fædd á flótta

Móðirin Shahnaz, fjórtán ára dóttir hennar, Zainab, og sonurinn Amir, sem er 12 ára, hittu blaðamann og ljósmyndara á Stundinni á dögunum. Við hittumst seinni partinn, að beiðni móðurinnar, sem vildi ekki að börnin misstu stundir úr skóla. Skólaganga þeirra hér er eitt það dýrmætasta sem hún hefur lifað svo árum skiptir. Amir gengur í Grandaskóla og Zainab í Hagaskóla. Það er þungt yfir þeim öllum og þeim stekkur ekki bros á vör allan þann tíma sem þau dvelja á skrifstofunni. Þau hafa heldur ekki margt til að brosa yfir. Þau eru heltekin af áhyggjum, öll þrjú, og bera það með sér.

 „Ég trúi því ekki enn þá hversu slæmar aðstæður eru í Grikklandi.“

Það eru um sex mánuðir frá því Shahnaz og börnin hennar tvö komu til Íslands í þeirri von að öðlast hér betra líf. Fimmtán ár eru frá því Shahnaz og eiginmaður hennar yfirgáfu stríðshrjáð Afganistan og flúðu til Íran. Þar fæddist þeirra fyrsta barn, dóttirin Zainab, og tveimur árum síðar bættist sonurinn Amir í fjölskylduna. Fjölskyldan bjó í tólf ár í Íran en lífið var þeim erfitt og tækifærin til betra lífs fá. Fyrir þremur árum síðan tóku þau ákvörðun um að flýja ástandið og fara til Evrópu. Þau komu til Grikklands í mars árið 2016, eftir að hafa farið fótgangandi um torfærnar götur og fjöll, frá Norður-Íran til Tyrklands. Þaðan komust þau, eftir nokkrar tilraunir, með báti til Grikklands. Þar mættu þeim allt aðrar aðstæður en þau höfðu vonað. „Ég trúi því ekki enn þá hversu slæmar aðstæður eru í Grikklandi,“ segir Shahnaz.

Það er Arash Rahnam, Írani búsettur á Íslandi, sem túlkar fyrir fjölskylduna. Shahnaz talar ekki íslensku né heldur ensku. Móðurmál hennar er dari en hún er hvorki læs né skrifandi. Dóttir hennar, Zainab, sem er 15 ára, er búin að læra dálitla ensku og talar nokkur orð í íslensku.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár