Félagsmenn Eflingar samþykktu boðun verkfalls 8. mars meðal hreingerningafólks á hótelum í gærkvöldi. 862 greiddu atkvæði og samþykktu 769 boðunina. Verkfallsboðunin telst því samþykkt af félagsmönnum og verður afhent SA og Ríkissáttasemjara í dag.
„Félagsmenn hafa talað,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Ég er innilega stolt af félagsmönnum okkar sem hafa sent mjög skýr og kröftug skilaboð með atkvæðum sínum. Það var ótrúlegt að upplifa andrúmsloftið á vinnustöðunum þar sem við skipulögðum atkvæðagreiðslur.“
Á kjörskrá voru 7950 manns og þátttaka í kosningunni því rétt tæp 11%. 67 greiddu atkvæði gegn og 26 tóku ekki afstöðu. Verfallsboðunin var því samþykkt með 89% atkvæða.
Samtök atvinnulífsins telja vinnustöðvunina ólöglega og munu leita réttar síns fyrir Félagsdómi. Mun stöðvunin standa yfir frá 10 um morgun til miðnættis og tekur hún til allra þrifa og hreingerninga á hótelum og gistihúsum á félagssvæði Eflingar.
Athugasemdir