Áform ríkisstjórnarinnar um að girða fyrir samnýtingu skattþrepa eru ígildi um 3 milljarða skattahækkunar sem lendir að mestu á tekjuhæstu fjölskyldum landsins.
Hækkunin sem leggst á heimili sem samnýta skattþrep verður að meðaltali miklu meiri en sú lækkun skattbyrðar sem sömu heimili njóta vegna nýs lágtekjuskattþreps.
Að þessu leyti er fullyrðing Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að það sé „ekki verið að hækka skattbyrðina neins staðar“ röng.
Áformin eru athyglisverð í ljósi þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins lögðust eindregið gegn sams konar lagabreytingu árið 2016.
Kostnaður vegna samnýtingar tvöfaldaðist frá 2015
Samnýtingu þrepa hjá samsköttuðum má rekja til upptöku þrepaskipts skattkerfis í tíð vinstristjórnarinnar árið 2010. Fyrirkomulagið lýsir sér þannig að ef tekjuskattstofn annars skattaðilans er yfir efstu þrepamörkum og skattstofn hins aðilans undir þeim mörkum reiknast hluti skattstofns tekjuhærri aðilans út frá skattprósentunni í þrepinu fyrir neðan sem tekjulægri aðilinn fullnýtir ekki.
Við fækkun skattþrepa úr þremur í tvö í árslok 2015 rýmkaði samnýtingarheimildin umtalsvert. „Í kjölfar þessarar rýmkunar hefur endurgreiðsla vegna samsköttunar meira en tvöfaldast og er nú um 2% af öllum tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga,“ segir í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa sem kynnt var í gær.
Stjórnarþingmenn lögðust gegn tillögu Bjarna árið 2016
Bjarni Benediktsson lagði til að samnýtingarheimildin yrði afnumin í apríl 2016. Ráðuneyti hans rökstuddi þá afstöðu meðal annars með eftirfarandi hætti:
Samsköttunarreglan eykur ráðstöfunartekjur tekjuhærri heimila, að langmestu leyti heimila í hæstu tekjutíund. Þau heimili sem munu hljóta ábatann eru jafnframt með mjög stóran hlut fjármagnstekna heimila. Hún gengur því gegn því almenna hlutverki hins opinbera að stuðla fremur að því að jafna tekjudreifinguna en auka hana. Tekjuhærri heimili geta að auki nýtt sér samsköttunarregluna til fulls ef annar aðilinn hefur tök á að taka allar tekjur sínar í gegnum samlagsfélag eða einkahlutafélag.
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis – þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins auk Guðmundar Steingrímssonar úr Bjartri framtíð – var ósammála þessum sjónarmiðum. „Afstaða meirihlutans er að mikilvægt sé að þessi heimild haldist inni og telur að þau sjónarmið sem bent hafi verið á vegi ekki eins þungt og þeir hagsmunir einstaklinga sem þarna búa að baki,“ sögðu stjórnarliðar í nefndaráliti um sumarið. Meðal þeirra sem skrifuðu undir þessi sjónarmið voru Sigríður Andersen, núverandi dómsmálaráðherra, og Willum Þór Þórsson, núverandi formaður fjárlaganefndar. Þessi einarða afstaða meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar varð til þess að samnýtingarheimild skattþrepa var áfram við lýði.
Hámarksskattaafsláttur er nú hálf milljón á ári
Í dag er hámarksívilnun vegna samnýtingar þreps um 500 þúsund krónur á ári. Til samanburðar er rétt að hafa í huga að áætluð hámarkslækkun skattbyrðar til heimila vegna innleiðingar nýs lágtekjuþreps sem á að ganga upp tekjustigann er 162 þúsund krónur á ári.
Árið 2015 var heildarkostnaðurinn af samnýtingu skattþrepa um 1,2 milljarðar en í fyrra var kostnaðurinn kominn upp í 3,5 milljarða. Samnýtingin er langalgengust meðal tekjuhæstu sambúðaraðila eins og sjá má á myndunum hér að neðan.
Samnýting skattþrepa reiknast ekki í staðgreiðslu heldur við álagningu tekjuskatts, að jafnaði ári eftir að teknanna er aflað. „Þess vegna er reiknaður tekjuskattur tekjuhærri einstaklings í samsköttun, sem uppfyllir viðmið um samnýtingu skattþrepa, lægri við álagningu en sá tekjuskattur sem viðkomandi hefur greitt í staðgreiðslu, að öðru óbreyttu,“ segir í skýrslu sérfræðingahópsins. „Þannig skapast krafa til endurgreiðslu frá ríkinu sem greidd er tekjuhærri einstaklingnum nema upphæðin sem er tilkomin vegna samnýtingar skattþreps nýtist til skuldajöfnunar eigi ríkið kröfu á annan eða báða aðila vegna vangoldinna skatta eða gjalda.“
Sagði ranglega að enginn fengi þyngri skattbyrði
Þegar Bjarni Benediktsson kynnti skattatillögur ríkisstjórnarinnar í síðustu viku fagnaði hann því mjög að skattar yrðu ekki hækkaðir á neina. „Það er ekki verið að auka skattbyrðina neins staðar. Þetta finnst mér afskaplega mikilvægt,“ sagði hann.
„Það er ekki verið að auka skattbyrðina neins staðar. Þetta finnst mér afskaplega mikilvægt“
Eins og hér hefur verið bent á fela þó tillögur ríkisstjórnarinnar í sér afnám skattaafsláttar sem hefur runnið að stærstum hluta til hátekjuheimila.
Þetta hefur verið kynnt sem hálfgert tækniatriði eða aðgerð í þágu kynjajafnréttis frekar en skattahækkun á tekjuháa, nokkuð sem ekki er víst að myndi mælast vel fyrir í baklandi Sjálfstæðisflokksins.
Ef ekki væri fyrir þessa aðgerð myndi miklu stærri hluti þeirra 14 milljarða sem ríkisstjórnin eyrnamerkti tekjuskattslækkun renna til þeirra sem eru ofarlega í tekjustiganum.
Athugasemdir