Starfsgreinasamband Íslands vísar kjaradeilu við Samtök atvinnulífisins til ríkissáttasemjara. Þetta kemur fram í tilkynningu sem sambandið sendi frá sér rétt í þessu.
Starfsgreinasambandið og SA hafa nú fundað alls hundrað og tíu sinnum síðan í nóvember 2018, en miðar ekki áfram í kjaradeilu sín á milli. Í tilkynningunni segir að „ýmislegt hefur þokast áfram á undangegnum vikum í einstökum málum og umræðugrundvöllur til staðar á öðrum sviðum.“
Þrátt fyrir það er mat viðræðunefndar Starfsgreinasambandsins að nú verði ekki komist lengra í deilunni nema með aðkomu ríkissáttasemjara. Biðla þau til ríkissáttasemjara að skipuleggja og stýra áframhaldandi vinnu.
Í dag var einnig viðræðum Eflingar, VR, VLFA, VLFG og Samtaka atvinnulífsins slitið. Samningafundur hófst um tvö leytið í húsakynnum ríkissáttasemjara en var lokið fyrir þrjú leytið, en fundurinn átti að standa til hálf fjögur.
Deiluaðilar munu hittast áfram á tveggja vikna fresti þrátt fyrir slit á viðræðunum, eins og kveðið er á um í lögum.
Athugasemdir