Hafandi hlustað á málatilbúnað forsætisráðherra og fjármálaráðherra í andófi ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfum samtaka launamanna og samtökum aldraðra rifjast upp viðhorf borgarastéttarinnar gagnvart kröfum launamanna um aukið orlof og hvernig of mikil frístundaiðja gæti leitt til hins verra. Um þetta voru háðar harkalegar ritdeilur í fjölmiðlum lengi vel fram eftir síðustu öld.
Íslenskir verkamenn hafa ætíð þurft að berjast fyrir sínum réttindum með óþrjótandi starfi, baráttu og stundum blóðugum verkföllum. En ætíð hefur það verið svo að stjórnmálastéttin birtist í sínum fjölmiðlum og eignar sér sigra verkafólksins. Það hefur aldrei verið mikið jafnræði í stjórnmálum á Íslandi. Stjórnmálastéttin hefur stolið því frá almenningi og gert stjórnmálin að leikvelli örfárra einstaklinga, sem hafa búið sér í því skjóli kerfi þar sem örfáir aðilar fara með öll völd. Kerfi þeirra kallar á fólk sem hefur unun af valdi og þráir að beita völdum, en hefur ekki að sama skapi áhuga á skynsamlegri umræðu.
„Að allt væri í besta lagi, vegna þess að það gæti ekki verið öðruvísi.“
Meirihluti íslenskra stjórnmálamanna virðist vera sannfærður um að það sé viljinn sem öllu ráði og sé hin eiginlega orsök. Veruleikinn sem við blasir sé ekki það sem ræður. Þeir voru farnir að feta í fótspor heimspekingsins Altúngu úr sögu Voltaires; „Að allt væri í besta lagi, vegna þess að það gæti ekki verið öðruvísi.“ Þess vegna væri það fáránlegt af forsvarsmönnum stéttarfélaganna að vera að barma sér yfir þessu ástandi og standa í vegi fyrir eðlilegri þróun samfélagsins. Spaugstofan sá þetta á sínum tíma með augum Voltaires og þeir sýndu okkur félagsmálaráðherra á ferð um Kárahnjúka sem daufblindan mann, sem hvorki sá né heyrði nokkuð athugavert, sama er hægt að segja um núverandi ráðherra.
Stærsta réttarbót alþýðunnar
Orlofslögin voru nefnd „Stærsta réttarbót alþýðunnar síðan alþýðutryggingalögin voru samþykkt“ og voru loks afgreidd frá Alþingi þann 10. febrúar 1943. Orlofslögin tryggðu öllum sem unnu í annarra þjónustu minnst einn orlofsdag fyrir hvern mánuð sem unninn væri á fullum launum. Orlofshlutfall nam þá 4% af kaupinu.
„Ég hef séð hr. Müller verslunarstjóra á skíðum sínum með sitt prikið í hvorri hendi og nokkra unglinga apa þetta eftir honum“
Í því sambandi má benda til dæmis á grein Guðmundar Magnússonar (Jón Trausti) í Lögréttu 1914 sem endurspeglar vel stefnu ríkisstjórna undanfarinna ára. Þar er Guðmundur að gagnrýna L.H. Müller fyrir það að kenna einhverja útlenska skíðaíþrótt til frítímaeyðslu: „Ég hef séð hr. Müller verslunarstjóra á skíðum sínum með sitt prikið í hvorri hendi og nokkra unglinga apa þetta eftir honum. Mjer hefur fundist þetta líkara ferfætlingum en skíðamönnum. Sárast þykir mjer það, ef skíðaíþróttin verður aðeins að fjelagsskaparhjegóma hér í Reykjavík, einskisverðu leikfélagi – orsök til monts og fordildar, tímaeyðslu og peningaeyðslu, en einskis gagns, nafnið notað til yfirskins fyrir dansskemmtanir og sumarútreiðir. Hjer er svo fullt af „húmbúgi“ og skíðaíþróttin er of góð til þess að verða því til aukningar. Þó að hr. Müller kunni að vera góður kennari, vildi jeg þó heldur að fenginn væri skíðamaður norðan úr Fljótum til kennslunnar, þjóðlegur skíðaíþróttarmaður.“
Skíði átti að nota til ferða
Skíði átti einungis að nýta til nauðsynlegra ferða milli staða. Til þess átti að brúka þjóðleg skíði, sem yfirleitt voru tveir tunnustafir og nota á eitt kústskaft fyrir staf. Á tunnustafina var festur kubbur við skótána. Skóbindingin átti í besta falli að vera lítill bandspotti yfir tána. Þetta var til öryggis gert svo hægt væri að losa sig samstundis við skíðin ef á þurfti að halda. Müller náði, þrátt fyrir andstöðu þjóðrembunnar, hylli almennings og stóð að baki átaki við að kaupa og flytja inn myndarlegan norskan skíðaskála með gistiaðstöðu, sem var reistur í Hveradölum sumarið 1935.
Athugasemdir