Hópur Sósíalista, ásamt mótmælendahópnum Skiltakörlunum, mótmælti við höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstrætinu í hádeginu í dag.
Daníel Örn Arnarson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins í Reykjavík, sagði mótmælin snúa að spillingu.
„Við erum að mótmæla gegndarlausri spillingu og viðbjóði sem viðgengst í okkar banka. Þetta eru okkar peningar sem er verið að gefa þessu fólki og við krefjumst þess að þessu verði hætt núna og þetta verði tekið til baka,“ sagði hann.
Tilefni mótmælanna var launahækkun bankastjóra Landsbankans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur. Laun bankastjórans hafa hækkað um 140 prósent á fjórum árum. Í apríl í fyrra hækkuðu launin um 17 prósent í einu skrefi, úr 3,25 milljónum króna í 3,8 milljónum króna.
Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi eigandi Fréttatímans og Fréttablaðsins og einn af stofnendum Sósíalistaflokksins, dreifði bæklingum meðal áhorfenda í Austurstræti á meðan mótmælunum stóð. Hann vildi ekki tjá sig.
Mótmælendur voru á annan tug talsins.
Í nýjustu skoðanakönnun Gallups mældist Sósíalistaflokkurinn í fyrsta skipti með nægan stuðning til að ná inn fulltrúa á Alþingi, eða 5,3 prósent.
Athugasemdir