Jón Baldvin Hannibalsson er „í nauðvörn“ vegna ásakana um kynferðislega áreitni, að mati Svavars Gestssonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Alþýðubandalagsins. Segir hann mál Jóns Baldvins líta „hroðalega“ út.
Svavar og Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og seðlabankastjóri, voru í viðtali hjá Sigmundi Erni Rúnarssyni í þættinum 21 á Hringbraut á þriðjudag. Ræddu þeir viðtal við Jón Baldvin í Silfrinu á RÚV síðastliðinn sunnudag.
„Þetta mál Jóns Baldvins er alveg hroðalegt eins og það lítur út,“ sagði Svavar. „Maður finnur til með þessu fólki eins og henni Aldísi [dóttur Jóns Baldvins]. Það er alveg nístandi að hugsa um hana. Það getur enginn nema reiður maður sett hlutina upp eins og hann gerði, að fólk hafi verið að opna þessa hluti bara af því að það vildi ekki að einhver bók kæmi út. Hvurs lags voðalegir hlutir eru þá í þessari bók?“
Sagði Svavar að málið væri greinilega hvergi nærri búið þar sem Jón Baldvin ætlaði að skrifa bók um það. „Þegar leiðtogi jafnaðarmanna, eins og hann hefur titlað sig sjálfur oftar en allir aðrir, finnst mér, þegar hann fer að tala um femínisma, reyndar öfgafemínisma, sem sérstakt pólitískt vandamál, það er ansi mikið sagt. Hann er í nauðvörn,“ bætti hann við.
Jón Sigurðsson sagðist eiga erfitt með að tala um málið sem gamall vinur og velunnari Jóns Baldvins. „Í viðtalinu þá skaðaði hann frekar sjálfan sig með því að gleyma sér og koma með samsæriskenningar og reiði,“ sagði Jón. „Ég held að hann sé laskaðri eftir sjónvarpsviðtalið en fyrir það, vegna þess að hann er sjálfur að taka upp ýmis einkamál inn á opinberan vettvang þar sem þau eiga eiginlega ekki heima. Hann er kannski að einhverju leyti að ögra þessum konum til þess að segja meira en þær ella hefðu sagt.“
Athugasemdir