Hin nýja stétt áhrifavalda veldur mér nokkrum heilabrotum. Nú tel ég sjálfan mig ekki sérstaklega ginnkeyptan fyrir auglýsingum og skrumi. Því á ég frekar erfitt með að skilja að fólk skuli flykkjast eins og læmingjar að baki einhverri manneskju sem sannfærir það, í gegnum símaskjáinn, um að borga 4.000 kall fyrir hamborgara í Þrastalundi. Sem dæmi.
Ekki þar fyrir að það er alls ekki allt slæmt sem hlýst af því að fólk taki umrædda áhrifavalda til fyrirmyndar. Konur á aldrinum 25 til 45 ára kunna nú öll trikkin í bókinni við þrif heima hjá sér, eftir að hafa fylgt ungri konu á samfélagsmiðlum en sú hefur unun af því að þrífa. Þessar konur hefðu líklega rétt eins getað talað við mæður sínar, og alveg örugglega ömmur sínar, og fengið hjá þeim öll þessi þrifaráð. En það er önnur saga.
Það sem er hvað nýjast að frétta úr heimi áhrifavaldanna þessa dagana er japönsk kona sem á hug margra. Og hvað skyldi hún nú boða? Jú, að fólk skipuleggi heimili sín og hendi dótinu sínu. Umrædd kona hefur náð svo langt í sínum áhrifamætti að hún heldur nú úti sjónvarpsþáttaröð á Netflix-efnisveitunni. Svona svipað og Margrét í Hússtjórnarskólanum gerði með hinn ágæta þátt Allt í drasli. Eða það ímynda ég mér.
Japanska konan vill að fólk safni veraldlegum eigum sínum í haug, fari í gegnum þær og hendi því sem ekki veki hjá fólki ósvikna gleði. Það er nú líklega auðveldara um að tala en í að komast. Heimili eru yfirleitt full af alls konar dóti sem færir engum gleði en er nauðsynlegt. Eins og klósettburstar. Klósettbursti hefur ekki fært neinum gleði, aldrei nokkurn tímann. Hann er samt nauðsynlegur.
Kannski er það með þennan áhrifavald eins og suma aðra, að við ættum frekar að leita ráða hjá eldri kynslóðum. Fólki sem tamdi sér nægjusemi og nýtni, vildi hafa fallegt í kringum sig en gerði sér fulla grein fyrir að heimili þurfa á hlutum að halda sem færa engum ánægju. Eins og klósettburstum.
Athugasemdir