Persónuvernd telur að það sé í verkahring Alþingis að ákveða hvort upplýsingar um kaupendur fullnustueigna Íbúðalánasjóðs verði birtar opinberlega en Alþingi vill ekki taka afstöðu til málsins. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í svari við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar þingmanns Miðflokksins um málið.
Fullnustueignir eru þær eignir Íbúðalánasjóðs sem sjóðurinn hefur tekið yfir á nauðungaruppboði vegna greiðslufalls lántaka, en fyrirspurn Þorsteins tekur til kaupenda á árunum 2008 til 2017. „Fyrir liggur því að ráðherra er heimilt að afhenda þinginu umbeðnar upplýsingar,“ segir í svari ráðherra. „Hins vegar felur slík afhending í sér birtingu á vef þingsins sem telst opinber birting, birting fyrir almenningi, en afstaða Persónuverndar var sú að slík birting væri atriði sem þingið þyrfti að taka afstöðu til. Alþingi hefur hins vegar ekki viljað taka afstöðu til opinberrar birtingar umræddra upplýsinga og vísar til þeirrar vinnureglu sinnar að svör við fyrirspurnum til ráðherra séu birtar á vef þingsins og það geti ekki tekið afstöðu til þess hvaða upplýsingar séu birtar á vef þess eða tekið ábyrgð á slíkri birtingu.“
Fram kemur að félagsmálaráðuneytið hafi óskað eftir ítarlegra áliti Persónuverndar en fengið þau svör að afhending persónuupplýsinga frá ráðherra til Alþingis og birting upplýsinganna á vef Alþingis teldust „tvær aðskildar vinnsluaðgerðir í skilningi persónuverndarlaga“.
Í samræmi við 6. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, væri félagsmálaráðuneytið ábyrgðaraðili afhendingar upplýsinganna til Alþingis en Alþingi ábyrgðaraðili birtingarinnar. Persónuvernd myndi þurfa að veita sérstakt álit til Alþingis um opinbera birtingu upplýsinganna, óskaði þingið þess. „Ekki liggur því fyrir álit stofnunarinnar um opinbera birtingu upplýsinganna, en fyrir liggur að afhendi ráðherra upplýsingarnar muni Alþingi birta þær opinberlega án tafar,“ segir í svarinu.
Ráðherra telur sig því ekki geta afhent Alþingi upplýsingarnar en tekur fram að ekkert sé því til fyrirstöðu af hálfu ráðuneytisins að afhenda þær án opinberrar birtingar, svo sem á vettvangi þingnefnda. Þá er greint frá því að ráðherra hafi beint þeim tilmælum til Íbúðalánasjóðs að umræddar upplýsingar verði birtar opinberlega á vef sjóðsins að fengnu áliti frá Persónuvernd. „Ráðuneytinu er kunnugt um að sjóðurinn hafi þegar sent Persónuvernd erindi þar sem álitsins er óskað og standa væntingar til þess að niðurstaða komist í það mál sem allra fyrst og mögulegt verði að ljúka máli þessu á farsælan hátt.“
Athugasemdir