Að vera í fæðingarorlofi er bæði skemmtilegt og krefjandi. Ég eignaðist tvö börn á tveimur árum og fór því ansi fljótlega í seinna orlofið eftir það fyrra. Vissulega var dásamlegt að vera heima með dætrum mínum, brjóta saman þvott þegar barnið tók lúr, baka köku, drekka óheyrilegt magn af kaffi og tárast yfir Ellen í sjónvarpinu. Það komu líka tímabil sem ég var svolítið eingangruð. Komst ekki út að labba með vagninn vegna veðurs, var mikið ein heima og þráði að komast í góðan hádegismat með vinnufélögunum – bara fá að vera með.
Mánuðir liðu og stóra stundin rann upp, vinnan var á næsta leiti og mín biðu stór og mikilvæg verkefni. Allt í einu fór ég að verða stressuð yfir því að fara að vinna aftur, þægindaróninn hafði fengið að blómstra og óreglulegur svefn var bara nokkuð næs. Hvernig átti ég að þola að hitta margt fólk átta tíma á dag, þurfa að taka þátt í samræðum um daginn og veginn? Ef það hafði ekki komið fram í Ellen þá vissi ég voða lítið. Hvernig átti ég að svara tölvupóstum sem hrúguðust inn og halda uppi samræðum á fundum, eða jafnvel halda sjálf fundi, tala nú ekki um að stilla vekjaraklukkuna?
Fyrstu dagarnir í vinnunni fóru í að muna hin ýmsu lykilorð og efla orðaforðann sem virtist hafa týnst. Hvernig gerir maður aftur fundarboð og hvað má taka langan hádegismat? Ég var eins og unglingur sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum.
Með dass af kæruleysi og „þetta reddast“ gekk þetta furðuvel. Þrátt fyrir að ég hafi sent yfirmanni mínum fundarboð klukkan níu um kvöld og það tvisvar í röð er ekki búið að reka mig. Hvað varðar þvottinn á heimilinu og að mæta í ræktina þrisvar í viku, ætli það verði ekki bara bíða í svona tvö ár í viðbót? Blessuð vertu, þetta reddast!
Athugasemdir