Upptökum úr myndavélum Alþingis frá 20. nóvember 2018 hefur verið eytt. Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar vegna Klaustursmálsins þar sem niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, um að hafna kröfu Miðflokksmanna um gagnaöflun og vitnaleiðslur er staðfest.
„Við meðferð málsins fyrir Landsrétti voru lögð fram gögn um að Persónuvernd hefði óskað eftir upptökum úr eftirlitsmyndavélakerfi veitingastofunnar Klausturs. Jafnframt að fram hafi komið hjá fyrirsvarsmanni veitingastofunnar að gerðar hafi verið ráðstafanir til að varðveita upptökurnar í sex mánuði. Þá hefur verið upplýst að upptökum úr myndavélum Alþingis hafi verið eytt og að ekki séu eftirlitsmyndavélar á vegum dómkirkjunnar,“ segir í úrskurðinum sem Stundin hefur undir höndum.
„Það eru engar upptökur til hér frá þessu kvöldi“
Áður hefur Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis sagt í svari við fyrirspurn Stundarinnar um tengd málefni: „Það eru engar upptökur til hér frá þessu kvöldi. Væri það svo mundum við hvorki varðveita slíkt né afhenda öðrum en lögreglu.“
Landsréttur taldi þingmenn Miðflokksins ekki hafa sýnt fram á að gagnaöflunin væri nauðsynleg til að undirbyggja ákvörðun um málsókn. Var því úrskurður héraðsdóms staðfestur og þingmennirnir dæmdir til að greiða Báru Halldórsdóttur 300 þúsund krónur í kærumálskostnað.
Athugasemdir