Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur er varðar fyrirhugaða málsókn þingmanna Miðflokksins gegn Báru Halldórsdóttur vegna hljóðritunar á samskiptum þeirra á veitingastaðnum Klaustri.
Þingmennirnir, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, fóru fram á að ráðist yrði í gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir héraðsdómi í desember. Þeirri kröfu var hafnað í héraði þann 19. desember en þingmennirnir áfrýjuðu málinu til Landsréttar.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar kvað Landsréttur upp úrskurð í dag þar sem niðurstaða Héraðsdóms er staðfest og málskostnaður felldur á þingmennina.
Bára Halldórsdóttir steig fram í forsíðuviðtali við Stundina þann 7. desember síðastliðinn. „Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum. Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra,“ sagði hún sem sjálf er hinsegin og öryrki. „Því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi. Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því.“
Af bréfum sem lögmaður þingmanna Miðflokksins hefur sent héraðsdómi og Persónuvernd má ráða að þingmennirnir vilji að Bára Halldórsdóttir sæti refsingu, greiði þeim miskabætur og verði sektuð af Persónuvernd vegna ólögmætrar „njósnaaðgerðar“ sem þingmennirnir telja sig hafa orðið fyrir.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lýst skilningi á þessum aðgerðum þingmannanna. „Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég kominn með hundleið á þessu máli. Ég skil alveg það sem Sigmundur Davíð er að benda á og tel að vilji menn láta reyna á rétt sinn til þess að kalla fram frekari gögn og upplýsingar þá sé mjög hæpið að menn reyni að leggja stein í götu þeirra,“ sagði hann í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag.
Athugasemdir