Aðalmeðferð fer í dag fram í máli Ernu Reka, 19 mánaða gamallar stúlku sem fædd er á Íslandi í apríl 2017 en fyrir héraðsdómi verður tekist á um úrskurð Útlendingastofnunar þess efnis að vísa skuli Ernu og foreldrum hennar úr landi. Deilt er um túlkun á útlendingalögum og telja foreldrar Ernu og lögmaður fjölskyldunnar að brottvísun hennar úr landi brjóti í bága við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Foreldrar Ernu, þau Nazife og Erion, komu hingað til lands frá Albaníu og sóttu hér um hæli árið 2015. Þau fengu atvinnuleyfi hér á landi en var svo vísað úr landi. Skömmu síðar komu þau hingað til lands á nýjan leik og sóttu um dvalarleyfi. Umsókn þeirra var hafnað af Útlendingastofnun í febrúar 2018 og kærunefnd útlendingamála staðfesti þá niðurstöðu í júlí síðastliðnum.
Aðalmeðferð fer fram í dag, en dómsmálið er höfðað með þeim rökum að í 102. grein útlendingalaga segi að óheimilt sé að vísa útlendingi úr landi hafi hann átt hér fasta búsetu frá fæðingu samkvæmt Þjóðskrá. Lögheimili barna hælilsleitenda og þeirra sem sótt hafa um dvalarleyfi er hins vegar skráð með öðrum hætti en annarra barna og þannig var einnig með Ernu. Af þeim sökum telur Útlendingastofnun að umrætt ákvæði eigi ekki við í máli Ernu.
Við þessa niðurstöðu vilja foreldrar Ernu ekki sætta sig og höfðuðu því umrætt dómsmál. Telja þau meðal annars að mismunandi skráning lögheimila barana sé brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem óheimilt sé að mismuna börnum á grundvelli stöðu foreldra þeirra.
Athugasemdir