VR er með til skoðunar mál starfsmanna WOW air sem sagt var upp í hópuppsögnum í desember. Starfsmennirnir voru í fæðingarorlofi og skorti skriflegan rökstuðning fyrir uppsögnunum eins og lög kveða á um. Fréttablaðið greinir frá.
13. desember var 111 fastráðnum starfsmönnum WOW air sagt upp störfum og samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn voru látnir renna út.
„Það hafa nokkrir leitað til okkar sem svo var ástatt um og það er verið að kalla eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni. Þegar fólki í fæðingarorlofi er sagt upp þarf að fylgja rökstuðningur,“ segir Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR.
Lög um fæðingarorlof kveða á um að óheimilt sé að segja upp fólki í fæðingarorlofi, barnshafandi konum og konum sem nýverið hafi fætt barn. Að öðrum kosti þurfi gildar ástæður að vera fyrir uppsögninni og skriflegur rökstuðningur að fylgja.
„Meginreglan er sú að það er bannað að segja fólki upp í fæðingarorlofi,“ segir Stefán. „Það er meginreglan, en það er heimilt ef gildar ástæður eru fyrir hendi eins og lögin segja, þá þarf þennan skriflega rökstuðning. Það er verið að kalla eftir honum og bíða.“
Athugasemdir