„Þetta fór frekar vel fram bara fannst mér,“ segir Helgi Kristinsson, sitjandi formaður Sjómannafélags Íslands, sem gefur lítið fyrir gagnrýni félagsmanna á það hvernig aðalfundur félagsins fór fram í gær, fimmtudag. Stjórn félagsins hefur meðal annars verið gagnrýnd fyrir að senda aðalfundinn ekki út með fjarfundarbúnaði til þess að gera félagsmönnum af landsbyggðinni kleift að taka þátt auk þess sem ákveðnum félagsmönnum finnst sem þeir hafi ekki ennþá hafa fengið viðhlítandi skýringar á fjármálum félagsins. Stundin greindi frá því í nóvember að félagsmenn hefðu þá þegar óskað eftir undirskrifuðum ársreikningum sem og hreyfingarlistum en ekki fengið.
Einn félagsmanna, Rúnar Gunnarsson, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í gær, að það hefði soðið upp úr á fundinum þegar kosning í nefndir félagsins hófst. Helgi gefur lítið fyrir þessar lýsingar og segir að tveir til þrír stuðningsmenn Heiðveigar Maríu Einarsdóttur hafi verið með frammíköll og síðar rokið á dyr. Sigurður Jóhann Atlason er á meðal þeirra félagsmanna sem hefur tilkynnt um úrsögn úr félaginu í kjölfar fundarins. Hann skrifaði pistil sem fengið hefur dreifingu á Facebook þar sem hann tilkynnti um úrsögn sína úr félaginu í ljósi þess að þolinmæði hans gagnvart stjórninni væri komin að þrotum. Þá sagði hann að svo virtist sem sjóðir félagsins væru tómir.
Sitjandi formaður hlær að þessari gagnrýni og segir skrítið að þetta komi umræddum félagsmanni á óvart enda hafi félagið greitt út 107 milljónir króna í verkfallsbætur sem hafi haft sín áhrif á sjóði félagsins. „Ég er mjög hissa ef að hann er mjög hissa, því væntanlega hefur hann notið góðs af þessu gati þarna þegar verkfallsbótunum var útbýtt þarna í þessu verkfalli,“ segir Helgi sem tekur fram að þótt sjómannaverkfallið hafi verið blóðugt fyrir félagið sé fjárhagsstaða þess enn ágæt. „Við eigum peninga ennþá til og það er sjálfbært félagið, þannig að þetta er allt í fínum gír sko.“
Geta ekki valið sér stól
Sjómannafélagið hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur og mánuði, sérstaklega eftir að Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingur, var gerð brottræk þaðan á þeirri forsendu að hún hefði skaðað hagsmuni félagsins með gagnrýni sinni. Bergur Þorkellsson, núverandi gjaldkeri félagsins, leiddi A listann, þann eina sem var í framboði, og verður því næsti formaður félagsins. „Það var ekki nema eitt gilt framboð og þar var Bergur formaður og mjög góður maður í starfið,“ segir Helgi Kristinsson, sitjandi formaður, í samtali við Stundina.
Hann viðurkennir að það hafi ekki ennþá gróið um sár síðustu vikna. „Þeir eru ekkert sáttir og vildu náttúrulega bara breyta fundarsköpum í gær. En þetta er ekkert öðruvísi hjá okkur heldur en öðrum félögum, þú kemur ekkert bara inn af götunni og velur þér stól.“ Sem fyrr segir greindi fréttastofa RÚV frá því að aðalfundinum hefði verið slitið á sjöunda tímanum í gær vegna mikils ósættis sem hefði komið upp á fundinum. Þá var haft eftir Rúnari Gunnarssyni, einum félagsmanna, að soðið hefði upp úr þegar kosning í nefndir félagsins hófst.
„Þú kemur ekkert bara inn af
götunni og velur þér stól“
Helgi Kristinsson gerir almennt lítið úr óánægjuröddum félagsmanna í samtali við Stundina og segir að fundurinn hafi að mestu leyti farið friðsamlega fram. „Þetta voru allavega ekki nein læti þarna,“ segir hann aðspurður um lýsingar félagsmannanna. Hann lýsir atburðarrásinni þannig að nokkrir félagsmenn hafi til að byrja með verið með frammíköll í byrjun fundarins en það hafi lagast þegar líða fór á fundinn og menn fóru upp í pontu til þess að koma skoðunum sínum á framfæri.
Segja sig úr félaginu
„Strax í fyrramálið mun ég senda ykkur úrsögn úr félaginu þar sem ég mun áskilja mér rétt til að sækja félagsgjöld mín til baka ef það kemur upp úr krafsinu að ólögleg athæfi hafi átt sér stað innan félagsins,“ skrifaði félagsmaðurinn Sigurður Jóhann meðal annars í pistli sem birtur var í gær og fengið hefur dreifingu á Facebook. „Ég mun biðja minn launafulltrúa um að halda eftir félagsgjöldunum mínum næsta mánuðinn á meðan við sjómenn skoðum hvar hag okkar er best borgið því eftir árekstra seinustu vikna og mánuða og skoðun ársreikninganna í dag, þar sem sjóðirnir virðast tómir, er augljóst að eitthvað mikið er að í félaginu sem ég hélt að væri mitt.“
Annar félagsmaður, Ingi Þór H. tekur í sama streng í stöðuuppfærslu á Facebook en hann segir að spurningum félagsmanna hafi ekki verið svarað að fullu á aðalfundinum. „Þegar kemur að bókhaldi þessa blessaða félags þá virðist ekki standa steinn yfir steini neinsstaðar,“ skrifar Ingi sem hyggst einnig segja sig úr félaginu. „Ég ætla að gera eins og aðrir halda félagssjöldunum mínum frá sjómannafélagi íslands næstu mánaðarmót þangað til ég sé hvað ég ætla að gera. Því þessi A listi er ekki minn listi, ef mér er neitað um lýðræði árið 2018 þá neita ég ykkur um peningana mína.“
Í færslu sinni segir Sigurður Jóhann meðal annars að ekki hafi fengist viðhlítandi skýringar á ársreikningum og að fundi hefði verið slitið án þess að þær lagabreytingar sem bornar hefðu verið upp hefðu verið afgreiddar. „Þeir gengu út, jú, einhverjir þarna, áður en átti að fara í þessar breytingar sem hafði verið óskað eftir, þannig að þessu var bara vísað til þeirrar nefndar,“ segir formaðurinn Helgi sem bætir við að það hafi verið svolítið skrítið að þeir hafi farið áður en þetta hafi verið tekið fyrir.
Staðgengill fékk ekki að sitja fundinn
Sigurður Jóhann gagnrýnir einnig að stjórn félagsins hafi ekki orðið við beiðni hans um að notast við fjarfundarbúnað til þess að félagsmenn eins og hann, utan af landsbyggðinni, ættu kost á að sitja fundinn. „Ég óskaði ítekað eftir að aðalfundurinn yrði einnig sendur út í fjarfundi fyrir okkur landsbyggðarmennina því félagið á að heita landsfélag. Því var ítrekað hafnað þrátt fyrir góðan fyrirvara og boð mitt um að koma því í kring.“ Formaðurinn kannast hinsvegar ekki við að slík beiðni hafi komið fram. „Ég hef nú ekki heyrt þetta áður.“
„Það eru bara félagsmenn sem eru á fundinum, hann getur ekki sett mömmu sína eða eitthvað, skilurðu?“
Þá gagnrýnir Sigurður Jóhann að staðgengli hans hafi verið meinað að sitja fundinn. „Vegna fjarlægðar frá fundarstað sendi ég staðgengil á fundinn í dag þar sem ég komst ekki sjálfur. Var sá staðgengill með gilt umboð, undirritað og vottað, var það ekki tekið gilt af engum ástæðum.“ Helgi segir ekkert athugavert við þetta enda geti einungis gildir félagsmenn setið aðalfundi félagsins. „Mér skyldist það að það hefði einhver verið með staðgengil en hann var ekki í félaginu og það eru bara félagsmenn sem eru á fundinum, hann getur ekki sett mömmu sína eða eitthvað, skilurðu?“
Stundin greindi nýlega frá því að Sjómannafélag Íslands hefði greitt tæpar 35 milljónir króna í laun og launatengd gjöld árið 2015, ef marka má óundirritaðan ársreikning félagsins fyrir 2015. Þrír starfsmenn félagsins fengu því samanlagt um þrjátíu milljónir króna í laun frá félaginu þetta sama ár, ef frá eru talin launatengd gjöld. Stundin hefur einnig greint frá því að Jónas Garðarsson, þá sitjandi formaður félagsins, hafi verið hæst launaði verkalýðsleiðtogi landsins árið 2016, en hann var með um 1,9 milljónir króna í mánaðarlaun, samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra sem nálgast má á vefsíðunni tekjur.is. Þá hefur blaðið greint frá því að Hallur Hallsson hafi fengið þrettán milljónir króna fyrir að rita sögu félagsins og 1,2 milljónir fyrir ritun upplýsingabæklings.
Athugasemdir