Um fjórðungur landsmanna varð fyrir tilraun til net- eða símabrots á árinu 2017 og 5% landsmanna varð fyrir fjárhagslegu tjóni vegna glæps af því tagi. Þetta kemur fram í könnun sem lögreglan birti í dag.
Flestir aðspurðra urðu fyrir tilraun til blekkinga á netinu. 2,9% aðspurðra varð fyrir fjárhagslegu tjóni við verslun á netinu og 1,4% varð fyrir því að kortanúmer þeirra var misnotað. Um tveir þriðju brotanna vörðuðu upphæðir undir 20.000 krónum.
Munur er á brotunum eftir aldri og menntun. Yngsti hópurinn, 18-25 ára, var líklegastur til að verða fyrir netbrotum, enda sá hópur sem verslar mögulega mest á netinu, að mati lögreglu. 11% aðspurðra á þessum aldri hafði tapað fé á netbrotum.
Í könnuninni kemur einnig fram að fjórðungur landsmanna 18 ára og eldri hafi orðið fyrir að minnsta kosti einu broti af einhverju tagi á árinu. Flestir urðu fyrir eignaskemmdum, eða 17%. 8% aðspurðra urðu fyrir þjófnaði og 7% fyrir innbroti.
Flestir aðspurðra telja að umferðarlagabrot séu helsta vandamálið í þeirra byggðarlagi eða hverfi. Á Norðurlandi eystra og í Vestmannaeyjum eru fíkniefnabrot talin alvarlegast vandamálið, en á höfuðborgarsvæðinu hafa flestir áhyggjur af innbrotum.
Embætti ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóðu að könnuninni, sem framkvæmd var á netinu.
Athugasemdir