Andrés Magnússon, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, gagnrýnir DV og kallar eftir því að blaðið upplýsi um frétt sem birtist um skamma hríð á vef blaðsins en hvarf skömmu síðar þann 8. desember síðastliðinn.
Skjáskot af forsíðu DV.is, þar sem frétt um Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra virðist hafa birst fyrir mistök, hefur fengið nokkra dreifingu á samfélagsmiðlum og vakið upp spurningar, meðal annars samsæriskenningar um að fréttin hafi verið „stöðvuð“. Fréttin birtist án myndar og að því er virðist ótilbúin. Liggur því beinast við að álykta að birtingin hafi verið mistök.
Andrés víkur að málinu í fjölmiðlarýni sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. „Ef heimildir brugðust, þá átti bara að segja frá því. Hafi fréttin reynst röng, þá átti að segja frá því. Og helst biðja viðkomandi afsökunar. En eins og staðan er veit enginn hvort hún er rétt eða röng, sögð eða ósögð. Það gengur ekki,“ skrifar hann.
Fyrirsögn fréttarinnar sem Andrés vísar til er svohljóðandi: „Ásmundur Einar Daðason á myndbandsupptöku þar sem rætt var á klámfenginn hátt um erlendan leikmann.“ Virðist sem þarna sé vísað til máls sem hefur verið umtalað innan íþróttafélagsins Skallagríms í Borgarnesi, en Ásmundur hefur setið í stjórn körfuknattleiksdeildar félagsins.
Stundin sendi Ásmundi Einari fyrirspurn um málið á Facebook í byrjun mánaðar og spurði jafnframt um ástæður þess að Ásmundur hefði ekki tjáð sig opinberlega um ummæli Klaustursþingmanna sem snú að hópum hverra málefni heyra undir ráðuneyti Ásmundar. Ásmundur sá skilaboðin en kaus að svara þeim ekki. Stundin hefur jafnframt sent ráðherra og aðstoðarmönnum hans tölvupóst um málið.
Athugasemdir